Ákærður fyrir eldsvoðann á Selfossi

Maðurinn er ákærður vegna brunans á Kirkjuvegi 11 á Selfossi …
Maðurinn er ákærður vegna brunans á Kirkjuvegi 11 á Selfossi í október í fyrra. mbl.is/Eggert

Karlmaður hefur verið ákærður af embætti héraðssaksóknara vegna bruna í einbýlishúsi við Kirkjuveg 11 á Selfossi 31. október. Í brunanum lést par og var maðurinn handtekinn á vettvangi. Var hann húsráðandi, en kona sem var gestkomandi var einnig handtekin á staðnum. Voru þau bæði úrskurðuð í gæsluvarðhald, en Landsréttur felldi úr gildi gæsluvarðhald yfir konunni. Maðurinn hefur hins vegar sætt varðhaldi frá því hann var handtekinn.

Rúv segir frá því að maðurinn sé ákærður fyrir manndráp, en fyrir manndráp af gáleysi til vara. Þá sé hann ákærður fyrir að valda eldsvoða.

Þetta hefur Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari staðfest í samtali við mbl.is.

Konan sem einnig var handtekin á staðnum er að sögn Rúv einnig ákærð í málinu og er það fyrir að hafa ekki gert það sem í hennar valdi stóð til að vara við eða afstýra eldsvoðanum.

mbl.is