Bergþór ætlar að halda áfram á þingi

Bergþór Ólason fór í launalaust leyfi frá þingstörfum í lok …
Bergþór Ólason fór í launalaust leyfi frá þingstörfum í lok nóvember en hyggst snúa aftur á þing. Ljósmynd/Miðflokkurinn

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, hyggst taka sæti að nýju á Alþingi. Hann og Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins, tóku sér leyfi frá þingmennsku í lok nóvember í kjölfar þess að upptökur af samtali þeirra og fjögurra annarra þingmanna frá barnum Klaustri voru afhentar fjölmiðlum.

Bergþór segir í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag það sé óskemmtileg reynsla að hafa komið sjálfum sér illilega á óvart. Í greininni rifjar hann upp kvöldstund sexmenninganna á barnum Klaustri. „Öll eigum við sæti á Alþingi og þetta kvöld stóð svo á að umræðu um fjárlög var að ljúka og öll höfðum við þá lokið ræðum okkar um þau. Við sátum sum lengi og höfðum áfengi um hönd. Við göspruðum út og suður, þar á meðal um stjórnmálin, stjórnmálaflokkana og ýmsa stjórnmálamenn. Ekki hvarflaði að neinu okkar að við værum að tala við fleiri en okkar litla hóp. Engu okkar datt í hug að nokkur yrði móðgaður eða sár af tali okkar.“

Bergþór segir það vonda þróun að legið sé á hleri þegar annað fólk tali saman á  veitingahúsum. „Mér fannst vont að fjölmiðlar teldu sjálfsagt að birta slíkt drykkjuraus opinberlega og eiginlega enn verra hversu margir voru ánægðir með hvort tveggja. En verst af öllu fannst mér að heyra í sjálfum mér,“ segir í grein Bergþórs.

Þá segir hann athyglisvert hversu hart hafi verið barist gegn því að þingmennirnir sex fái aðgang að gögnum sem tengjast málinu.

„En ekkert af þessu finnst mér þó eins slæmt og sumt af því sem ég sjálfur hef sagt þetta kvöld. Upptakan var að vísu ólögmæt, hún virðist klippt saman og margt í fréttaflutningi af tali okkar og talsmáta hefur verið tekið úr samhengi, en í mínum huga er aðalatriðið að margt af því sem ég hef greinilega sagt þetta kvöld er að mínu mati til skammar, ekki aðeins sleggjudómar og fáránlegar hugleiðingar heldur einnig stundum með orðbragði sem kemur mér mjög illilega á óvart að ég hafi notað.“

Af þessum ástæðum ákvað Bergþór að taka sér launalaust leyfi. „Ég vildi ná áttum og horfa í spegilinn á þennan mann sem þarna hafði talað með orðbragði sem ég hefði ekki getað ímyndað mér að hann ætti til. Um þetta hef ég síðan átt í samtali við bæði sjálfan mig og marga sem meira vita.“

Bergþór greinir frá því að hann hafi talað við áfengisráðgjafa og leitað aðstoðar sálfræðings „Ég hef átt löng og hispurslaus samtöl við þá sem lengi hafa þekkt mig. Ég er miður mín yfir mörgu sem ég sagði þetta kvöld og sérstaklega yfir því að orð mín hafi orðið til þess að særa fólk, sem ég hef aldrei viljað særa, en varð skiljanlega sárt þegar upptaka af samtalinu var spiluð fyrir alþjóð. Ég ber ábyrgð á eigin orðum og finnst virkilega leiðinlegt að hafa látið þau verstu þeirra falla. Í okkar fámenna hópi á veitingahúsinu voru þessi orð ósmekklegt en meiningarlaust raus yfir glasi, sem engan særði. Það var ekki okkar ákvörðun að þau skyldu borin á borð fyrir alla þjóðina.“

Bergþór var kjörinn á þing haustið 2017 og segir hann að í þingstörfum sínum hafi hann reynt að berjast fyrir hagsmunum fólksins í því kjördæmi sem hann tilheyri og fyrir þeirri stefnu sem flokkur hans byggist á. „Ég hyggst gera þetta áfram eftir bestu getu. Ég fagna hverjum þeim sem vill eiga við mig samstarf um raunveruleg brýn málefni en mun ekki erfa það við neinn sem fer aðrar leiðir,“ skrifar Bergþór, en ekki fylgir sögunni hvenær hann hyggst nákvæmlega snúa aftur á þing.

mbl.is