Ekki eins og leikskólabarn í taumi

Grímur Sigurðarson, verjandi Kjartans Bergs (t.h.), segir skjólstæðing sinn hafa …
Grímur Sigurðarson, verjandi Kjartans Bergs (t.h.), segir skjólstæðing sinn hafa tekið sjálfstæða ákvörðun um að eiga þau viðskipti sem hann er ákærður fyrir. mbl.is/Eggert

Grímur Sigurðarson, verjandi Kjartans Bergs Jónssonar, fer fram á að skjólstæðingur hans verði sýknaður og segir málatilbúnað ákæruvaldsins gegn honum allan í skötulíki og óskiljanlegan, svo óskiljanlegan að hann hafi íhugað að láta reyna á frávísun málsins, en að skjólstæðingur hans hafi viljað láta sýkna sig af ákærunni í eitt skipti fyrir öll.

„Kjartan Bergur er ákærður fyrir að eiga hlutdeild í meintri ráðleggingu Kristjáns til sjálfs sín,“ sagði verjandinn, sem telur það ekki geta staðist, að menn séu ákærðir fyrir að láta ráðleggja sér.

Grímur sagði ákvörðun Kjartans Bergs um að eiga þessi tilteknu viðskipti auk þess hafa byggst á hans eigin viðskiptareynslu, en fram hefur komið að Kjartan Bergur hafi ekki gert slíkan samning áður, auk þess sem Kristján Georg hafi liðsinnt honum við að loka samningnum og innleysa hagnaðinn sem af honum varð.

„Þar sem Kjartan Bergur á tvö fyrirtæki sem reka hvort sitt hótelið vissi hann hvaða áhrif krónan var að hafa á ferðamannabransann og gerði sér í hugarlund að Icelandair gæti átt í sambærilegum vandamálum og hans fyrirtæki, þar sem hann var að fá færri krónur fyrir þann gjaldeyri sem hann fékk inn í tekjur,“ sagði verjandinn og bætti við að það hefði verið ástæðan fyrir viðskiptunum.

„Svo einfalt er það,“ sagði Grímur.

Kjartan Bergur tók mynd af söluréttarsamningi ákærða Kristjáns og það var að sögn verjandans einfaldlega gert til að tryggja formið, til að tryggja að samningurinn væri gerður rétt, meðal annars hvað varðaði rétta þóknun til verðbréfamiðlara og annað slíkt.

Grímur neitaði því að skjólstæðingur hans hefði verið leiddur í gegnum kaupin eins og „leikskólabarn í taumi“ og sagði hann reyndan viðskiptamann.

Ekki refsiverð háttsemi samkvæmt lögum

„Háttsemi ákærða í þessu máli, að veðja á að einhver tiltekin hlutabréf falli, er ekki refsiverð samkvæmt lögum,“ sagði Grímur. Hann segir lágmark að ákæruvaldið sýni fram á að Kristján Georg, sem sagður er hafa ráðlagt Kjartani Bergi að gera þessi viðskipti, hafi haft aðgang að einhverjum innherjaupplýsingum. Það hafi ekki verið gert.

Grímur mótmælti því einnig að Kjartan Bergur hefði vitað hvað nafni hans Kjartan hjá Icelandair starfaði við, þar sem þeir hefðu farið saman í ferð á UFC-bardagakvöld í Belfast árið 2016. Hann sagði það ekki þurfa að vera, þó að menn ferðuðust  í sama hópi, að þeir vissu hvað hvor um sig starfaði.

Andabrandari saksóknara ósmekklegur

Grímur vék að orðum Finns Þórs Vilhjálmssonar saksóknara frá því í morgun, þar sem hann sagði eftirfarandi um sönnunargögn málsins: „Ef það lít­ur út eins og önd og labb­ar eins og önd og kvak­ar eins og önd, þá er það senni­lega önd.“

„Svona brandarar eiga auðvitað ekkert heima í sakamáli, því það verður að skýra allan minnsta vafa ákærðum manni í hag,“ sagði Grímur.

Málið lagt í dóm

Að loknum málflutningi Gríms veitti saksóknari andsvör við málflutningi verjendanna í málinu. Finnur Þór gerði margvíslegar athugasemdir við málflutning þeirra, meðal annars það sem kom fram í máli verjenda um að þær upplýsingar sem Kjartan Jónsson hafði aðgang að hjá Icelandair teldust ekki innherjaupplýsingar samkvæmt lögum.

Andabrandari saksóknarans Finns Þórs Vilhjálmssonar var gagnrýndur í málflutningi Gríms.
Andabrandari saksóknarans Finns Þórs Vilhjálmssonar var gagnrýndur í málflutningi Gríms. mbl.is/Eggert

Hann sagði þessa málsvörn hafa verið reynda áður fyrir íslenskum dómstólum, án árangurs. Ákæruvaldið telur upplýsingarnar sem Kjartan bjó yfir uppfylla öll hugtakaskilyrði innherjaupplýsinga, að því leyti að þær voru nægilegar til þess að hafa áhrif á hlutabréfaverð.

„Varðandi það að handvelja út viðskipti, þá er ekki verið að handvelja eitt eða neitt út,“ sagði Finnur Þór, sem sagði vel geta verið að Kristján Georg hefði átt „fjölda viðskipta sem voru með eðlilegum hætti,“ en það segði okkur ekkert um þau viðskipti sem ákært væri fyrir, sem hefðu verið með óeðlilegum hætti.

„Ég skil ekki alveg hvaða þýðingu umfjöllun um fréttaflutning á að hafa inn í þetta mál,“ sagði saksóknari um þá fréttaumfjöllun sem Reimar Pétursson sagði skjólstæðing sinn, Kristján Georg, hafa byggt viðskipti sín á.

Þá sagði Finnur Þór það liggja fyrir að haldið hefði verið í höndina á Kjartani Bergi í gegnum þau viðskipti sem hann átti í lok janúarmánaðar 2017, en tók fram að með því væri hann ekki að gera lítið úr persónu Kjartans Bergs. Gögn málsins sýndu einfaldlega að svo hefði verið. 

Þá sagði hann tal sitt um endur í málflutningsræðu sinni ekki hafa verið neinn brandara, heldur alvanalegt tal til þess að lýsa aðleiðslu við sönnunarfærslu í sakamálum.

Að loknum andsvörum saksóknara og svo verjenda var málið lagt í dóm, eftir tveggja daga aðalmeðferð hér í Héraðsdómi Reykjavíkur. Málið er fordæmalaust hér á landi, en aldrei hefur nokkur maður verið dæmdur fyrir að láta öðrum í té innherjaupplýsingar, eins og Kjartan Jónsson er sakaður um að hafa gert.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert