Krafðist skaðabóta vegna myglusvepps

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Þorsteinn Ásgrímsson

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað Holtaveg 10 ehf. og Húsasmiðjuna ehf. af kröfu um skaðabætur til karlmanns upp á rúmar sex milljónir króna.

Maðurinn krafðist þess að viðurkenndi yrði sameiginleg skaðabótaskylda stefndu vegna líkamstjóns hans af völdum myglusvepps á vinnustað sínum á árunum 2010 til 2012.

Hann starfaði í fyrirtæki sem Holtavegur ehf. rak en árið 2012 færðist reksturinn yfir til Húsasmiðjunnar ehf.

Maðurinn sagðist hafa farið að finna fyrir ýmsum líkamlegum einkennum sem hafi dregið úr þreki hans til leiks og starfa eftir að fyrirtækið flutti í nýtt húsnæði er það var í eigu Holtavegar ehf. Við skoðun á húsnæðinu kom í ljós eftir niðurstöðu örverumælingar að myglusvepp væri þar að finna.

Starfsmenn kvörtuðu yfir fúkkalykt í húsnæðinu og að frumkvæði stefnda Holtavegar 10 ehf. leituðu þeir til Heilsuverndar til skoðunar. Maðurinn gerði það og fór í framhaldinu í veikindaleyfi.

„Ekki verður annað ráðið af atvikum en að af hálfu starfsmanna stjórnenda Holtavegar 10 ehf. hafi þegar verið brugðist við umkvörtunum starfsmanna og rannsóknir gerðar á aðstæðum á vinnustað. Ekkert liggur fyrir um það í málinu að stefnda Holtavegi 10 ehf. hafi verið eða mátt vera kunnugt um að myglu væri að finna í umræddu húsnæði fyrr en í fyrsta lagi í ágúst 2011, eftir að Ráðtak ehf. skilaði framangreindri skýrslu, en í kjölfarið voru þegar gerðar ráðstafanir um flutning í annað húsnæði,“ segir í niðurstöðu héraðsdóms.

Fram kemur einnig að Húsasmiðjan hafi ekki verið vinnuveitandi mannsins þegar hann hóf störf í húsnæðinu þar sem myglusveppurinn fannst.

Manninum var gert að greiða stefndu sameiginlega 500.000 krónur í málskostnað. Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 2.500.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert