„Málið er gríðarlega flókið“

Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra.
Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hversu langt getur þetta kerfi gengið í því að níðast á þeim sem verst standa í þessu samfélagi?“ spurði Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, á Alþingi í dag og beindi orðum sínum að Ásmundi Einari Daðasyni, félags- og barnamálaráðherra. Tilefnið var skerðingar Tryggingastofnunar á greiðslum til öryrkja vegna búsetu sem til stendur að endurgreiða í kjölfar umfjöllunar umboðsmanns Alþingis.

„Þessi gjörningur hefur staðið yfir í 10 ár, frá 1. maí 2009. Núna kemur ríkið og segir: Heyrðu, við ætlum bara að bæta fjórum árum við. Bara fjórum. Ætlar ríkið þá að segja: Jess! Okkur tókst að ná sex árum af þeim sem fátækastir eru hér á landi? Við höfum borgað sanngirnisbætur vegna þess að brotið hefur verið á fötluðum einstaklingum og veiku fólki. Það er sanngirni í því að borga allt til baka,“ sagði Guðmundir Ingi enn fremur.

Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata og formaður velferðarnefndar Alþingis, beindi hliðstæðri fyrirspurn til Ásmundar Einars. Ráðherrann svaraði því til að stefnt væri að því að miða við fjögur ár. Tryggingastofnun væri að vinna í þessum málum og útfærsla á því hvernig staðið yrði að þeim yrði kynnt innan tíðar. Fara þyrfti yfir málið og átta sig á umfangi þess. Fara yfir fjárveitingar sem stofnunin hefði og undirbúa tímalínu.

Tíma tæki að hafa samband við hvern og einn einstakling og systurstofnanir Tryggingastofnunar í öllum þeim löndum sem viðkomandi einstakingar hefðu búið í og kalla eftir upplýsingum þaðan. Loks þyrfti að reikna handvirkt út hvern einstakling. „Það er því í mörg horn að líta. Málið er gríðarlega flókið af því að þetta hefur verið framkvæmt á þennan hátt í mjög langan tíma.“ Mikilvægt væri að vanda vinnuna í málinu.

„Þá má benda á að umboðsmaður tók tvö ár í að úrskurða um málið. Það er því mikilvægt að vanda sig þótt þetta taki einni vikunni lengur en skemur, þannig að það sé rétt þegar það verður gert.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert