Þarf að lokum að taka afstöðu

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er auðvitað mál sem er umdeilt bæði innan sveitarfélagsins, og þar af leiðandi í sveitarstjórninni, og á landsvísu líka. En það liggur fyrir niðurstaða og það er auðvitað það sem fylgir því að sitja í sveitarstjórn eða annars staðar þar sem taka þarf ákvarðanir. Það þarf að lokum að taka afstöðu og bera ábyrgð á henni.“

Þetta segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, í samtali við mbl.is vegna þeirra ákvörðunar meirihluta sveitarstjórnar Reykhólahrepps að auglýsa aðalskipulagsbreytingu sem gerir ráð fyrir Teigskógarleið, leið Þ-H, vegna vegagerðar á Vestfjarðavegi 60, en málið hefur verið umdeilt um árabil.

Þróun undanfarinna sextán ára

Sigurður segir ljóst að talsverðar tilfinningar væru vegna málsins sem meðal annars sýndi sig í mörgum bókunum vegna þess á fundi sveitarstjórnarinnar. Ferli málsins sé orðið langt þar sem upphaflega hafi verið lagt af stað með nokkrar leiðir sem síðan hafi fækkað smám saman. Að lokum hafi ekki verið um að ræða eina eða í mesta lagi tvær.

„Ég vil meina að þetta sé þróun undanfarinna sextán ára sem gerir það að verkum að sveitarstjórnin stóð að lokum frammi fyrir því að þurfa að velja á milli valkosta sem hafa verið í þróun,“ segir Sigurður Ingi. Enginn hafi verið þvingaður í þeim efnum. Þarna væri einfaldlega um að ræða ákveðna þróun mála til þessa.

mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert