Týndi fötunum og man ekki neitt

Gunnar Bragi Sveinsson á Alþingi í dag.
Gunnar Bragi Sveinsson á Alþingi í dag. mbl.is/​Hari

Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins, segist ekkert muna eftir kvöldinu á barnum Klaustri í nóvember og heldur ekki því sem gerðist einum og hálfum sólarhring eftir það.

„Ég hvorki veit hvað ég gerði, ég þurfti að hlusta á upptökurnar, ég týndi fötunum mínum þessa nótt. Það er algjört „blackout“. Það hefur ekki komið fyrir mig áður. Þannig að ég velti því fyrir mér hvað í fjandanum gengur á þarna,“ segir Gunnar Bragi í viðtali við Lindu Blöndal í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut sem verður frumsýndur klukkan 21 í kvöld, að því er Kjarninn greinir frá.

Hann bætir við að reiðin í rödd hans hafi valdið honum áhyggjum og þess vegna hafi hann leitað sér aðstoðar og ekki smakkað áfengi síðan. „Ég vil komast að því hvað gerðist áður en einhver önnur skref eru tekin,“ segir hann.

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, er einnig gestur þáttarins. Hann segist hafa átt viðtöl við áfengisráðgjafa og niðurstaða þeirrar greiningar hafi verið að hann sé ekki alkóhólisti.

Gunnar Bragi og Bergþór sneru aftur til starfa sinna á Alþingi í dag eftir að hafa verið í leyfi vegna þess sem gerðist á Klaustri. 

Bergþór Ólason á Alþingi í dag.
Bergþór Ólason á Alþingi í dag. mbl.is/​Hari
mbl.is