Ísland skuli krefja Tyrki um svör

Ingibjörg Þorsteinsdóttir, formaður Dómarafélags Íslands, og Skúli Magnússon, fyrrverandi formaður …
Ingibjörg Þorsteinsdóttir, formaður Dómarafélags Íslands, og Skúli Magnússon, fyrrverandi formaður þess. Þau gengu á fund utanríkisráðherra í dag og kröfðu hann um að biðja Tyrki um rökstuðning fyrir fangelsun Murat Arslan. mbl.is/​Hari

Hátt í 3.000 fyrrverandi tyrkneskir dómarar og saksóknarar eru á bak við lás og slá. Stjórnvöld þar eystra hafa staðið í ströngu síðustu ár við að skipa nýja menn í þeirra stað í stöður í dómskerfinu. Murat Arslan, formaður dómarafélagsins í Tyrklandi, var fangelsaður haustið 2017, skömmu eftir að hann sendi alþjóðasamtökum dómara þakkarbréf fyrir veittan stuðning.

Í dag gengu á fund utanríkisráðherra bæði sitjandi formaður Dómarafélags Íslands, Ingibjörg Þorsteinsdóttir, og fráfarandi formaður félagsins, Skúli Magnússon. Þau kröfðust þess að Arslan áðurnefndur sitji ekki áfram í fangelsi með vitund okkar Íslendinga, nema haldbærar ástæður séu fyrir hendi. Og þær eru það ekki, eftir því sem Skúli Magnússon fær best séð.

Að minnsta kosti eiga stjórnvöld, segir Skúli í samtali við mbl.is, að óska eftir svörum frá tyrkneskum stjórnvöldum um það, af hverju maðurinn var dæmdur í 10 ára fangelsi. Rökstuðning þann, er þegar er kominn frá Tyrklandsstjórn, segir Skúli ófullnægjandi; hann sé helst til almenns eðlis, það sé af honum að dæma erfitt að fá séð hvað Arslan hafi sér til saka unnið. Það er, annað en það að vera virkur í alþjóðasamfélagi dómara, nokkuð sem Skúli segir ekki mælast vel fyrir í Tyrklandi.

Ísland megi ekki bara horfa í hina áttina

„Það er í raun óskiljanlegt hvað við látum þessa þróun í Tyrklandi okkur í léttu rúmi liggja,“ segir Skúli. Þar hafa fleiri þúsundir dómara verið handteknir og enn fleirum verið vikið úr starfi án sjáanlegra ástæðna annarra en þeirra að þeir eru ekki hliðhollir stjórninni í einu og öllu, að sögn Skúla. Framkvæmdarvaldið hafi þannig tögl og hagldir í dómskerfinu, ástand sem auðsæilega er á skjön við grundvöll hugmyndarinnar um lýðræði.

Þessu verður Ísland að mótmæla, segir Skúli. Tyrkland sé ríki sem er í raun náið samstarfsríki okkar: það er til að mynda með okkur í NATO og Evrópuráði og fjöldi Íslendinga fer þangað í sumarleyfi. „Og nú er verið að tortíma réttarríkinu þarna á undraskömmum tíma. Það er verið að breyta Tyrklandi úr ríki sem var á leið til þess að vera samfélag sem gat kennt sig við réttarríki og lýðræði, og nú þróast Tyrkland í að verða hreint harðstjórnarríki,“ segir Skúli.

Fangelsaðir í raun án dóms og laga

„Grunur okkar er sá að raunverulega ástæðan fyrir fangelsun Arslan sé sú, að hann var virkur í alþjóðasamstarfi dómara,“ segir Skúli. Röksemdirnar fyrir dómnum sem Arslan hlaut hafi falið í sér ásakanir almenns eðlis og því sömuleiðis slengt fram, að hann hafi verið viðriðinn samsæri Culens sumarið 2016, en dæmdum dómurum er iðulega borið það á brýn í svona málum.

Skúli segir að það sé Íslendinga að gera alvarlegar athugasemdir við stjórnsýslu þessu líka, því slíkt hafi áhrif. „Tyrkirnir finna fyrir því ef við látum í okkur heyra og þeir fylgjast með blaðaumfjöllun um sig,“ segir Skúli og nefnir einnig að fjöldi blaðamanna sé í fangelsi vegna andstöðu sinnar við stjórnvöld.  

Ómarktækir dómstólar

Skúli, sem nú hefur látið af störfum sem formaður Dómarafélagsins, var áður virkur í starfi alþjóðasamtaka dómara. Aðili að þeim var einnig YARSAV, dómarafélag tyrkneskra dómara, samtök, sem tyrkneska stjórnin hefur lýst yfir að séu hryðjuverkasamtök. Þau hafa þannig reynt að leysa upp þetta gamla dómarafélag og stofnað nýtt. Alþjóðasamtök dómara viðurkenna hins vegar ekki hið nýja félag.

Í Tyrklandi er starfandi nýtt dómarafélag sem stjórnvöld stofnuðu. Dómarar hliðhollir stjórninni eru því þeir sem voru að verki þegar Murat Arslan var dæmdur í tíu ára fangelsi. Skúli segir þessa dómara ekki standa undir nafni sem sjálfstæðir dómarar, enda komnir undir framkvæmdarvaldið. Að hans mati er þetta ástand sem íslensk stjórnvöld geta ekki unað við að þeirra samstarfsríki láti viðgangast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert