Miðflokkurinn ræður formanninum

Oddný G. Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar.
Oddný G. Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert

Flokkarnir ráða því algjörlega sjálfir hvaða þingmenn eru valdir í formannssætið. Það er því Miðflokkurinn sem ræður því hver er formaður í umhverfis- og samgöngunefnd.“

Þetta segir Oddný G. Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, á Facebook í dag vegna fréttar Fréttablaðsins um að fulltrúar Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs, Samfylkingarinnar og Viðreisnar í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis leggist gegn því að Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, gegni áfram formennsku í henni vegna aðkomu hans að Klaustursmálinu.

Hinn valkosturinn að rifta samkomulaginu

Fréttablaðið hefur þetta eftir Ara Trausta Guðmundssyni, þingmanni VG og öðrum varaformanni umhverfis- og samgöngunefndar. Segir Oddný að Ari Trausti sé ekki talsmaður minnihlutans á Alþingi.  „Samkomulag um formennsku í nefndum var um að stjórnarandstaðan fengi þrjá formenn og við ákváðum að stærsti fengi að velja fyrstu nefndina og svo koll af kolli.“

Flokkarnir sem skipa minnihlutann ráði því sjálfir hvaða þingmenn þeirra gegni formennsku í þeirri nefnd sem þeir skipa formann í segir Oddný. „Hinn valkosturinn er að rifta samkomulaginu og þá er allt undir og allir flokkar þurfa að setjast niður og finna aðra umgjörð um störf þingsins.“

Málið rætt en engin ákvörðun verið tekin

Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar og fulltrúi flokksins í umhverfis- og samgöngunefnd, tekur undir með Oddnýju og segir ummæli Ara Trausta einfaldlega röng. Málið hafi verið rætt óformlega og síðan á fundi þingflokksformanna og verði áfram skoðað eftir helgina.

„Staðreyndin er einfaldlega sú að samkvæmt samkomulagi á Miðflokkurinn þetta formannssæti. Maður getur haft skoðanir á því og ef til vill munu þær skoðanir leiða til einhverrar atburðarásar en það liggur ekkert fyrir um það núna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert