Ósáttir við launalækkun

Lögreglustjórar og sýslumenn eru margir hverjir ósáttir við nýtt matskerfi forstöðumanna ríkisstofnana sem tók gildi um síðustu áramót. Forstöðumenn heyrðu áður undir kjararáð en fjármálaráðuneytið metur núna laun hvers og eins og forsendur grunnmats starfa þeirra.

Í langflestum tilvikum lækka lögreglustjórar í launum og hyggst Lögreglustjórafélag Íslands óska skýringa ráðuneytisins á nýrri launasetningu. Þetta staðfestir Úlfar Lúðvíksson, formaður félagins, í svari við fyrirspurn Morgunblaðsins en hann er lögreglustjóri á Vesturlandi. Hann segir laun lögreglustjóra lækka mismikið, eftir stærð og umfangi viðkomandi embættis.

Í bréfi ráðuneytisins er tekið fram að úrskurður kjararáðs um hærri heildarlaun haldi gildi sínu þar til launaákvörðun samkvæmt grunnmati starfs, að teknu tilliti til almennra launahækkana, verður jöfn núverandi heildarlaunum. Líta lögreglustjórar svo á að hér sé um launalækkun að ræða en ætla sem fyrr segir að kalla eftir frekari skýringum frá ráðuneytinu.

Lögreglustjórar eru ekki í Félagi forstöðumanna ríkisstofnana, sögðu sig úr því í desember 2017. Úlfar segir ráðuneytið ekkert samráð hafa haft við félagið áður en launaákvörðunin var tekin, enda hafi því verið lýst yfir af hálfu ráðuneytisins þar sem lögreglustjórar séu ekki í Félagi forstöðumanna ríkisstofnana. Lýsti félagið því yfir að það færi með samningsmál fyrir lögreglustjóra.

Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag svarar Úlfar því neitandi að það hafi verið heppileg lagasetning að fela fjármálaráðherra að ákveða lögreglustjórum laun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert