Vill fjögurra ára dóm yfir Sigurði

Héraðssaksóknari vill fjögurra ára dóm yfir Sigurði Kristinssyni vegna Skáksambandsmálsins.
Héraðssaksóknari vill fjögurra ára dóm yfir Sigurði Kristinssyni vegna Skáksambandsmálsins. mbl.is/Eggert

Héraðssaksóknari fór í dag fram á fjögurra ára fangelsisdóm yfir Sigurði Kristinssyni í Skáksambandsmálinu svokallaða. Tveir til viðbótar eru ákærðir í málinu og fór saksóknari fram á tveggja og þriggja ára dóm yfir þeim.

Frá þessu er greint á vef RÚV, en aðalmeðferð málsins var framhaldið í morgun er teknar voru skýrslur af spænskum lögreglumönnum og sérfræðingum í gegnum síma. Málið hefur nú verið lagt í dóm.

Mennirnir þrír eru ákærðir fyrir smygl á fimm kílóum af amfetamíni, sem falin voru í skákmunum og send með pakka sem stílaður var á Skáksamband Íslands.

Sigurður kaus að gefa ekki skýrslu fyrir dómi við aðalmeðferð málsins, en einn sakborninganna sagðist ekki hafa vitað að í pakkanum hefðu verið fíkniefni. Hann hefði talið peninga verið í pakkanum.  Það hefðu því runnið á hann tvær grímur þegar Sigurður hefði sagt honum að það væri ekki sniðugt að hann tæki á móti pakkanum sjálfur. 

Þriðji maðurinn hefur játaða að hafa sótt pakkann fyrir utan húsnæði Skáksambands Íslands. Sá segir þó ekki heldur hafa haft hugmynd um að hann innihéldi fíkniefni, heldur hefði sig grunað að þetta væru sterar.

mbl.is