„Ástandið er óþolandi“

Guðlaugur Þór segir ástandið í Venesúela óþolandi.
Guðlaugur Þór segir ástandið í Venesúela óþolandi. mbl.is/Eggert

Utanríkisráðherra segir íslensk stjórnvöld munu gera það sem í þeirra valdi stendur til þess að vilji venesúelsku þjóðarinnar nái fram að ganga og útilokar ekki að viðskiptasambandi Íslands við ríkisstjórn Nicolas Maduro verði slitið.

„Aðalatriðið er að ríki heims sameinist um það að gera það sem þau geta til þess að vilji fólksins nái fram að ganga,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson í samtali við mbl.is.

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hvatti í dag allar þjóðir heims til að hætta viðskiptum við ríkisstjórn Maduro. Guðlaugur Þór segir ekkert útilokað í þeim efnum.

Maduro rígheldur í forsetastólinn þvert gegn vilja venesúelsku þjóðarinnar.
Maduro rígheldur í forsetastólinn þvert gegn vilja venesúelsku þjóðarinnar. AFP

„Ástandið er óþolandi og við höfum gagnrýnt framgöngu stjórnvalda í Venesúela margoft. Þetta eru slíkar hörmungar að orð fá því ekki lýst. Það eru þrjár milljónir manna á flótta frá þessu landi sem er svo ríkt af auðlindum, en óstjórn og meingölluð hugmyndafræði hafa haft þessar skelfilegu afleiðingar,“ segir Guðlaugur Þór.

„Við gerum það sem við getum til þess að ýta undir það að þessi forseti, sem hefur gengið fram með eins ólýðræðislegum hætti og hugsast getur, sitji ekki þarna áfram í óþökk eigin þjóðar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert