Tveimur skipt út í siðanefndinni

mbl.is/Hari

Tveir fulltrúar í siðanefnd Alþingis hafa óskað eftir því að fjalla ekki um Klaustursmálið svonefnt. Hafsteinn Þór Hauksson, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, hættir í nefndinni en sú ákvörðun tengist málinu ekki. Hinn fulltrúinn, Salvör Nordal, hefur ákveðið að koma ekki að málinu vegna anna í embætti sínu sem umboðsmaður barna.

Þetta staðfestir Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, í samtali við mbl.is en Ríkisútvarpið hafði áður greint frá þessu í hádegisfréttum. Varamaður Hafsteins, Margrét Vala Kristjánsdóttir, tekur sæti hans í siðanefndinni og tillaga liggur fyrir um staðgengil Salvarar og verður fjallað um það mál á fundi forsætisnefndar Alþingis á morgun.

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, formaður siðarnefndarinnar og fyrrverandi forseti Alþingis, verður áfram í nefndinni og mun fjalla um Klaustursmálið.

mbl.is

Bloggað um fréttina