Umfangsmeiri skoðun kosninga

Persónuvernd hefur haft til skoðunar meðferð persónuupplýsinga vegna kosninganna 2016 …
Persónuvernd hefur haft til skoðunar meðferð persónuupplýsinga vegna kosninganna 2016 og 2017. Í haust var ákveðið að stækka umfang frumathugunarinnar vegna skýrslu um Cambridge Analytica. mbl.is/Eggert

Persónuvernd ákvað í kjölfar þess að hafa kynnt sér efnistök og aðferðir bresku kollega sinna við skoðun Cambridge Analytica, að breikka efnistök frumathugunar stofnunarinnar vegna þingkosninganna 2016 og 2017, þetta segir Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, í samtali við mbl.is.

Skýrsla persónuverndarstofnunar Bretlands, Information Commissioner‘s Office (ICO), kom út síðastliðið sumar.

„Þeir komust að hlutum vegna Cambridge Analytica sem er búið að gjörbylta sýn persónuverndarstofnana Evrópu á það hvað er í gangi á samfélagsmiðlum og hvernig unnið hefur verið með persónuupplýsingar með ólögmætum hætti,“ segir Helga.

Við lestur skýrslunnar kom í ljós að breiðari nálgun þyrfti við athugun stofnunarinnar í sambandi við kosningarnar 2016 og 2017. „Það sem við lærðum af þeirri skýrslu er að það eru miklu fleiri sem hafa aðkomu að þessum málum en maður hélt. Það eru ýmsir tengdir aðilar sem tengjast auglýsingaumhverfi og öðru sem þarf nauðsynlega að skoða.“

Upphaflega var lagt upp með að athugun Persónuverndar myndi snúa að félagatölum stjórnmálaflokka og segist forstjórinn ekki geta upplýst hvenær niðurstöður úr frumathugun Persónuverndar mun liggja fyrir.

„Við erum með mjög mörg þung og stór mál og við reynum ávallt að veita stærri málum forgang, þannig að það er ekkert sem ég gert sagt um það á þessu stigi.“

Íslendingar berskjaldaðri

Spurð hvaða máli það skiptir að 91% Íslendinga nota samfélagsmiðla borið saman við 56% íbúa Evrópusambandsins, segir hún það vera ákveðið umhugsunarefni.

„Þetta er staðreynd sem við erum að velta fyrir okkur og höfum bent á að geri okkur þess þá heldur berskjaldaðri heldur en önnur samfélög, vegna gríðarlega mikillar notkunar netsins og þeirrar staðreyndar að níu af hverjum tíu fullorðnum nota sama samfélagsmiðil,“ svarar Helga.

Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar.
Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert