Verði að meta sannleiksgildi ummælanna

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, segir áhugaverða stöðu vera komna …
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, segir áhugaverða stöðu vera komna upp í kjölfar þess að Ásmundur Friðriksson sendi erindi til forsætisnefndar vegna ummæla hennar og Björns Levís Gunnarssonar. mbl.is/Eggert

Þingflokkur Pírata ræddi á fundi sínum í dag um erindi Ásmundar Friðrikssonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins til forsætisnefndar Alþingis, en þingmaðurinn hefur óskað eftir því að forsætisnefnd skoði hvort opinber ummæli þingmannanna Björns Levís Gunnarssonar og Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, um endurgreiðslur þingsins á aksturskostnaði Ásmundar hafi verið á svig við siðareglur þingmanna.

„Við munum fá tækifæri til þess að svara áður en forsætisnefnd tekur einhverja formlega afstöðu til málsins og okkur finnst þetta svolítið áhugavert,“ segir Þórhildur Sunna, í samtali við mbl.is.

Hún segir það áhugaverða vera að forsætisnefnd þurfi væntanlega, til þess að komast að niðurstöðu, að meta sannleiksgildi ummæla hennar sjálfrar og Björns Levís um greiðslur þingsins til Ásmundar vegna aksturs hans á eigin bíl, sem mikið var rætt um á síðasta ári, eftir að fyrirspurn Björns Levís leiddi í ljós að Ásmundur fékk 4,6 milljónir króna endurgreiddar vegna aksturs árið 2017.

Björn Leví vakti einmitt athygli á þessu á Facebook-síðu sinni um helgina og sagðist hlakka til athugunar forsætisnefndar á ummælum sínum og Þórhildar Sunnu. Ásmundur sjálfur segir að í ummælum þingmannanna hafi falist bæði „gróf­ar aðdrótt­an­ir og full­yrðing­ar“ um refsiverða háttsemi hans.

„Til þess að það sé hægt að taka afstöðu til þessa máls, þá verður náttúrlega að athuga hvort að það sé eitthvað til í því sem við höfum verið að segja. Það er eitthvað sem forsætisnefnd hefur áður neitað að gera, gagnvart Ásmundi, þegar sent var erindi út af honum,“ segir Þórhildur Sunna við blaðamann.

Hún bætir við að þetta sé áhugaverð staða, en for­sæt­is­nefnd gaf þau svör við fyr­ir­spurn Björns Levís að hátt­erni Ásmund­ar hefði ekki verið and­stætt siðaregl­um alþing­is­manna. Forsætisnefndin taldi held­ur ekki til­efni til að hefja al­menna rann­sókn á end­ur­greidd­um akst­urs­kostnaði þing­manna.

„Á þá núna að fara að athuga, út af kvörtun gegn okkur, hvort það sé eitthvað til í því sem við segjum?“ segir Þórhildur Sunna og bætir við að þá væri forsætisnefnd að gera það sem hún hefði áður neitað að gera, eftir að Björn Leví sendi inn sitt erindi.

„Ég held að sé borið mál að siðanefnd taki afstöðu til þess, hvort við höfum brotið siðareglur, en þá þarf líka að skoða hvort hann Ásmundur hafi brotið siðareglur,“ segir Þórhildur Sunna.

mbl.is

Bloggað um fréttina