Margt sem ríki og sveitarfélög gætu gert

Formaður Samtaka grænkera segir að honum þyki að grænkerafæði ætti …
Formaður Samtaka grænkera segir að honum þyki að grænkerafæði ætti að vera í boði í öllum opinberum mötuneytum, en sú er ekki raunin í dag. Mynd úr safni. mbl.is/RAX

„Við erum ekkert endilega að segja að allir verði að vera vegan, en ef að ríki og sveitarfélög myndu bregðast svona við þá yrði heildarneysla almennings í landinu miklu meira grænkeramiðuð en hún er í dag,“ segir Benjamín Sigurgeirsson, formaður Samtaka grænkera, sem standa í kvöld fyrir málþingi um það hvort ríki og sveitarfélög eigi að stuðla að neyslu almennings á grænkerafæði.

Í samtali við blaðamann segir hann að honum þyki að grænkerafæði eigi að vera í boði í öllum mötuneytum ríkisins og sveitarfélaga. „Og kannski ekki bara á boðstólum, heldur mætti gera það miklu sýnilegra og aðgengilegra, jafnvel bjóða bara upp á vegan-mat einhverja daga vikunnar,“ segir Benjamín.

Hann nefnir að á leikskólum sveitarfélaga og spítölum ríkisins lendi grænkerar gjarnan í vanda við að fá fæði við hæfi. Á leikskólum sé ekki tekið tillit til óska foreldra um að börnin þeirra fái einungis vegan-mat og á spítölum hafi verið erfitt að fá grænkerakrásir.

„Það gæti reyndar hafa orðið breyting þar á, en ég veit að þetta var mikið vandamál og þeir sem voru vegan þurftu alltaf að biðja vini og ættingja um að koma með mat til sín, ef þeir voru inni á spítalanum,“ segir Benjamín, sem segir að færa megi rök fyrir því að heilbrigðisstofnanir ættu raunar að láta sjúklinga sína borða sem mest af vegan-mat, heilsu þeirra vegna.

Allir hræddir við að taka þessa umræðu

„Matur er persónulegur,“ segir Vigdís Fríða Þorvaldsdóttir, sem verður fundarstjóri á málþinginu, í samtali við mbl.is. Hún segir að það sé margt sem ríki og sveitarfélög geti gert til þess að stuðla að aukinni neyslu vegan-fæðis, en að hér á landi hafi sú umræða ekki verið tekin og að það sé eins og allir séu hræddir við að eiga þetta samtal.

Í kvöld verður það þó heldur betur gert og fengnir að pallborðinu bæði sérfræðingar og pólitíkusar, en í pallborði verða þær Salvör Nordal, umboðsmaður barna, Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi og formaður umhverfis- og heilbrigðisráðs Reykjavíkurborgar, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, alþingismaður, Hólmfríður Þorgeirsdóttir, næringarfræðingur og verkefnisstjóri hjá Embætti Landlæknis, og Hildur Harðardóttir, sérfræðingur Umhverfisstofnunar á sviði loftslagsmála og græns samfélags.

Málþingið stendur yfir frá 20:00-22:00 í kvöld og fer fram í sal Kvenréttindasambandsins að Túngötu 14 í miðborg Reykjavíkur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert