Þrífst í krefjandi umhverfi

Björn Zoëga er nýr forstjóri Karólínska og segir hann starfið …
Björn Zoëga er nýr forstjóri Karólínska og segir hann starfið mikla áskorun. mbl.is/Ómar

„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á skemmtilegum áskorunum, en því er ekki að neita að það er erfitt að neita þegar svona þekkt stofnun á alþjóðlegan mælikvarða biður mann, einhvern utanaðkomandi, um að koma í hæstu stöðuna,“ segir Björn Zoëga, sem hefur verið ráðinn forstjóri Karólínska sjúkrahússins í Svíþjóð, í samtali við mbl.is.

„Ég er stoltur og spenntur yfir þessu krefjandi starfi,“ segir hann. Við sjúkrahúsið starfa um 16 þúsund starfsmenn og þar eru um 1.400 rúm. Þá er velta spítalans um 18 milljarða sænskra króna, andvirði 239 milljarða íslenskra króna.

Björn er ekki fyrsti íslenski forstjóri sjúkrahússins og gegndi Birgir Jakobsson, núverandi aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra, stöðunni árin 2007 til 2014.

Blaðamaður spyr hvort Svíar séu einstaklega hrifnir af Íslendingum í ljósi þess að hann er annar Íslendingurinn til þess að gegna stöðunni á skömmum tíma.

„Ég held þetta hafi frekar flækt fyrir heldur en gert gagn sko. það voru nú ekki allir með það á hreinu að ég væri Íslendingur,“ svarar Björn og hlær. „En þetta er skemmtileg tilviljun,“ bætir hann við.

Erfið staða

Forstjórinn segir mikla áskorun felast í starfinu af tveimur megin ástæðum. Í fyrsta lagi hefur verið innleitt nýtt vinnufyrirkomulag sem talsverð óánægja er með og í öðru lagi sé verið að flytja starfsemi yfir í glæ nýtt sjúkrahús.

„Þetta hefur líka leitt til þess að fjárhagurinn hefur farið úr böndunum og það stefnir í að árið 2018 fari einhversstaðar í kringum 800 milljónir (andvirði 10,6 milljarða íslenskra króna) í mínus,“ útskýrir Björn sem segist þrífast í krefjandi umhverfi.

Hann segir jafnframt helstu markmiðin vera að auka ánægju starfsfólks og ekki síst að tryggja framúrskarandi þjónustu í hæsta gæðaflokki.

AFP
mbl.is