„Ábyrgð okkar er mikil“

Ragnar Þór Ingólfsson (t.h.) segir mikla samheldni vera hjá stéttarfélögunum …
Ragnar Þór Ingólfsson (t.h.) segir mikla samheldni vera hjá stéttarfélögunum sem eiga nú í viðræðum við Samtök atvinnulífsins um nýja kjarasamninga. mbl.is/Hari

„Við erum að reyna allt sem við getum til þess að ná saman við okkar viðsemjendur, bæði stjórnvöld og SA, og erum að leggja ansi mikið í sölurnar til að það takist,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, í samtali við mbl.is um gang kjaraviðræðna. Hann segir að reynt verði til þrautar að ná samningum.

„Ábyrgð okkar er mikil í að reyna að ná þessu saman og við munum reyna það sem við getum. Við höfum nálgast þetta mjög lausnamiðað gagnvart stjórnvöldum og SA og munum halda því áfram,“ segir Ragnar Þór og hann segir að ef svo fari að samningar takist ekki verði það alla vega ekki af því að stéttarfélögin fjögur, sem vísuðu deilu sinni til ríkissáttasemjara, hafi ekki reynt. Ragnar Þór segir mikið velta á aðkomu stjórnvalda.

„Það ætti að skýrast mjög fljótlega hvort aðkoma stjórnvalda verði með þeim hætti að það sjáist til sólar. Það ætti ekki að taka neitt rosalega langan tíma í rauninni, að finna tilfinninguna fyrir því hvort þetta sé eitthvað að fara að gerast eða ekki,“ segir Ragnar Þór.

Mikil samheldni hjá félögunum

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, sagði við mbl.is fyrr í dag að honum þætti hægt ganga og að stéttarfélögin þyrftu að fara að sjá fljótlega hvort deiluaðilar væru að fara að ná saman eða ekki og gaf því rúmlega tveggja vikna tímaramma, ellegar myndu félögin slíta viðræðum og ræða við félaga sína um framhaldið, þ.e. hvort gripið yrði til verkfallsaðgerða.

„Ég get alveg tekið undir það hjá Vilhjálmi,“ segir Ragnar Þór. „Við getum ekkert verið að gefa þessu mikið lengri tíma heldur en það, alla vega að sjá hvort við séum að nálgast eða ekki.“

Hann segir mikla samheldni vera hjá stéttarfélögunum fjórum í þessari deilu. „Við erum gríðarlega „mótiveruð“ í verkefnið. Það er vonandi að það fari að komast meiri skriður á málin, þetta gengur of hægt, ég held að það séu allir sammála um það og að það sjái það allir,“ segir Ragnar Þór.

Á fundinum í dag segir Ragnar að rætt hafi verið um hugmyndir SA um breytingar á launakerfum, að danskri fyrirmynd, á hugmyndafræðilegum nótum. Næsti fundur í deilunni verður á föstudag, frá kl. 9 til 12.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert