Ætluðu að mæta bíl á einbreiðri brú

Margeir telur líklegt að bílarnir séu báðir ónýtir.
Margeir telur líklegt að bílarnir séu báðir ónýtir. Ljósmynd/Margeir Ingólfsson

„Af hverju er svona lítið pláss til að mætast hér?“ spurði erlendur ferðamaður eftir að skólabíll og bílaleigubíll rákust saman á einbreiðri brú yfir Tungufljót skammt norðan við Geysi síðdegis í dag.

Engin slys urðu á fólki en sjö manns voru í bílunum tveimur, fjórir ferðamenn í bílaleigubílnum og tveir krakkar og ökumaðurinn Margeir Ingólfsson í skólabílnum. Hann segir að rekja megi slysið til vanþekkingar ökumanns bílaleigubílsins.

„Ég er að koma að brúnni og er að fara yfir í áttina að Geysi þegar bíll kemur hinum megin. Ég stoppa við brúarkantinn og hann fer yfir. Ég lít upp og sé að það er langt í næsta bíl og keyri af stað, eins og gengur,“ segir Margeir í samtali við mbl.is.

„Þegar ég er kominn inn á miðja brú tek ég eftir því að hinn bíllinn kemur alveg á fullu að brúnni,“ segir Margeir sem bremsaði. Hinn bíllinn bremsaði líka þegar hann var kominn inn á brúna.

Skauta út af alls staðar

„Það er hálka á brúnni og hann skautar bara á fullu á mig,“ segir Margeir sem telur að það hafi bjargað því að ekki fór verr að hann var á lítilli ferð til að byrja með, enda nýbúinn að hleypa bíl yfir.

„Ég margspurði hvort það væri í lagi með þau og þau jánkuðu því. Þau komu ekkert út úr bílnum fyrr en bráðaliðar frá Flúðum komu. Ferðamennirnir spurðu þá af hverju það væri svona lítið pláss til að mætast á brúnni. Þeir ætluðu bara að mæta mér.“

Margeir segir að vegirnir séu fullir af fólki sem ætti ekki að vera úti í umferðinni, sérstaklega í íslenskri vetrarfærð. Hann segir það algenga sjón á þessum árstíma að sjá bíla utan vegar.

„Þeir skauta hér út af alls staðar og þekkja ekki aðstæður á íslenskum vegum, eins og til dæmis einbreiðar brýr,“ segir Margeir og bendir á að útsýni beggja vegna brúarinnar sé gott.

Hann segir að bílarnir séu báðir illa farnir og gerir ráð fyrir því að þeir séu báðir ónýtir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert