Fólk hissa á framsæknum listaverkum

Pálmatré í Vogabyggð.
Pálmatré í Vogabyggð. Mynd/Reykjavíkurborg

Ólöf K. Sigurðardóttir, safnstjóri Listasafns Reykjavíkur, segir það lengi hafa verið ljóst að list yrði áberandi hluti af almenningsrými í Vogabyggð. Skýr markmið þess efnis hafi verið í deiliskipulagi.

Athygli hefur vakið sú upphæð sem verja á til kaupa á listaverki í Vogabyggð, eða 140 milljónir króna. Tillaga þýska listamannsins Karin Sadner, Pálmatré, bar sigur úr býtum í samkeppni um útilistaverk. Pálmatrén sjálf kosta 1,5 milljónir króna og glerhjúpurinn utan um þau um 43 milljónir hvor. Einnig er greitt fyrir höfundaverkið.

Ólöf var formaður forvalsnefndar sem valdi listamenn til þátttöku í lokaðri samkeppni en Listasafn Reykjavíkur hefur umsjón með listaverkum í Reykjavík og stendur að framkvæmd samkeppninnar.

Mynd/Reykjavíkurborg

Raunhæf upphæð

„Þó að þetta sé há upphæð fyrir listaverk í íslensku samhengi er þetta samt sem áður raunhæf upphæð miðað við kostnaðinn við veglegt og varanlegt útilistaverk sem á að standa til langrar framtíðar,“ segir Ólöf og bætir við að lóðaeigendur hafi sýnt mikla framsýni með því að ganga til samstarfs við Reykjavíkurborg um að list yrði hluti af ásýnd hverfisins. „Þetta er kostnaðarsöm framkvæmd en líka góð fjárfesting og áhugaverð.“

Ólöf nefnir að það sé viðmið í opinberum framkvæmdum að 1% renni til listskreytinga en því hafi alls ekki verið fylgt eftir af ríkinu á síðustu árum. Því hljóti það að vera framfaraskref að listin í Vogabyggð hafi strax verið bundin í samninga við lóðaeigendur. „Þarna er listin orðin partur af innviðagjöldum á sama hátt og frárennsli, lýsing og gangstétt. Ef við setjum þessa upphæð í það samhengi er ég ekki viss um að hún muni virka svona gríðarlega mikil.“

Karin Sadner hefur áður gert tillögu að verki sem er glerhjúpur sem gengur í gegnum byggingu í Þýskalandi.  

Aðspurð segir Ólöf að gagnrýnin á kostnaðinn við að setja upp listaverkið hafi komið sér á óvart. „Menn stukku svolítið hratt á þann vagn að allt kæmi þetta frá skattfé Reykvíkinga. Ég sá það ekki alveg fyrir en það sem kemur mér ekki á óvart er að þegar verið er að búa til framsækin listaverk verði fólk svolítið hissa,“ segir hún og nefnir söguleg fordæmi fyrir því á borð við Vatnsberann eftir Ásmund Sveinsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert