Funda um Klaustursmál á föstudag

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/​Hari

„Við erum búin að taka við gögnum í málinu og ég geri ráð fyrir því að við munum funda á föstudag,“ segir Stein­unn Þóra Árna­dótt­ir, þingmaður Vinstri grænna, í sam­tali við mbl.is en hún og Har­ald­ur Bene­dikts­son, þingmaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, hafa tíma­bundið verið kos­in í hóp vara­for­seta Alþing­is til þess að koma Klaust­urs­mál­inu svo­nefndu til siðanefnd­ar þings­ins til meðferðar.

Forsætisnefnd Alþingis ákvað í gær að Róbert H. Haraldsson tæki sæti Salvarar Nordal í siðanefnd Alþingis tímabundið. Róbert er sviðsstjóri kennslusviðs Háskóla Íslands og var áður prófessor í heimspeki. Þar með er siðanefndin fullskipuð, en hún hefur hins vegar ekki verið formlega kölluð saman vegna Klaustursmálsins.

Tveir af þremur full­trú­um nefndarinnar óskuðu eft­ir því að fjalla ekki um Klaust­urs­málið. Haf­steinn Þór Hauks­son, dós­ent við laga­deild Há­skóla Íslands, hætt­i í nefnd­inni en sú ákvörðun teng­ist mál­inu ekki. Varamaður hans, Mar­grét Vala Kristjáns­dótt­ir, tek­ur sæti hans í nefndinni. Þá ákvað Sal­vör Nor­dal að koma ekki að mál­inu vegna anna í embætti sínu sem umboðsmaður barna.

Ásta Ragn­heiður Jó­hann­es­dótt­ir, formaður siðar­nefnd­ar­inn­ar og fyrr­ver­andi for­seti Alþing­is, verður áfram í nefnd­inni og mun fjalla um Klaust­urs­málið.

Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri grænna og viðbótarvaraforseti forsætisnefndar Alþingis.
Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri grænna og viðbótarvaraforseti forsætisnefndar Alþingis. mbl.is/Ómar Óskarsson

Klaustursmál­inu var vísað til for­sæt­is­nefnd­ar Alþing­is í lok nóv­em­ber á síðasta ári af hópi þing­manna en Stein­grím­ur J. Sig­fús­son, for­seti þings­ins, og all­ir vara­for­set­ar lýstu sig í kjöl­farið van­hæfa til þess að fjalla um það í ljósi þess að þeir hefðu tjáð sig um það.

Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og viðbótarvaraforseti forsætisnefndar Alþingis.
Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og viðbótarvaraforseti forsætisnefndar Alþingis. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina