Gefur um tveggja vikna tímaramma

Vilhjálmur Birgisson á fundi í húsakynnum ríkissáttasemjara á mánudag.
Vilhjálmur Birgisson á fundi í húsakynnum ríkissáttasemjara á mánudag. mbl.is/Hari

Vilhjálmi Birgissyni, formanni Verkalýðsfélags Akraness, þykja kjaraviðræður fjögurra stéttarfélaga og Samtaka atvinnulífsins (SA), sem fram fara í húsakynnum ríkissáttasemjara þessa dagana, ganga hægt. Í samtali við mbl.is segir hann hlutina þurfa að vera farna að skýrast í þessum viðræðum innan 10-16 daga, annars verði þeim slitið.

„Ég er ekkert bjartsýnn á framhaldið,“ sagði Vilhjálmur að loknum fundi hjá sáttasemjara í dag, þar sem fulltrúar SA fóru að hans sögn meðal annars yfir launatöflur og þau mál voru rædd fram og til baka. Vilhjálmur segir að aðkoma stjórnvalda að kjaradeilunni muni skipta miklu máli á næstu dögum.

„Það liggur fyrir að hægt er að auka ráðstöfunartekjur fólks með margvíslegum hætti og þar á meðal í gegnum skattkerfið,“ segir Vilhjálmur, sem telur sem áður segir hægan gang í viðræðum SA og stéttarfélaganna fjögurra.

Vill sjá hilla undir niðurstöðu eftir um tvær vikur

„Það er alveg ljóst að það ber klárlega mikið í milli. Það þarf ekkert að fara í grafgötur með það. Það getur vel verið – og maður hefur nú verið í þessu í 14 ár – að hlutirnir gerist hratt á lokametrunum og vonandi gerast einhverjir ánægjulegir atburðir á lokametrunum en það er alveg ljóst að að endingu munum við þurfa að ná saman kjarasamningum, þannig er það bara.“

En hvenær renna lokametrarnir upp? Hvað eruð þið tilbúin að vera lengi í þessu samtali án þess að það fari eitthvað að þokast?

„Það er alveg ljóst að við erum ekki að tala um einhverjar vikur í því samhengi. Við erum frekar að tala um í mesta lagi einhverja, tíu, fjórtán, fimmtán, sextán daga, sem hlutirnir þurfa að vera búnir að skýrast endanlega um hvort að menn séu að ná saman eða ekki. Það er ekki talið í vikum, það er alveg morgunljóst.“

Og hvað ef ekki?

„Það náttúrulega liggur fyrir að ef við náum ekki saman og það kemur ekki niðurstaða sem okkur er þóknanlegt varðandi aðkomu stjórnvalda og aðkomu atvinnurekenda, þá liggur alveg fyrir að viðræðum verður slitið og menn munu fara í sitt bakland því það er alltaf fólkið á endanum sem tekur ákvörðun um það hvernig það vill bregðast við, hvort að það vill nýta sinn neyðarventil sem er verkfallssrétturinn. Það er fólkið sjálft sem tekur ákvörðun um það, ekki formenn stéttarfélaganna, en ég hef ekki trú á öðru en að fólkið verði tilbúið í þá vegferð ef að til þess kemur. Við skulum vona það besta en vera búin undir það versta.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert