Húsnæðisskýrslan kynnt fyrir velferðarnefnd

Halldóra Mogensen formaður velferðarráðs segir nefndarmenn eiga eftir að ræða …
Halldóra Mogensen formaður velferðarráðs segir nefndarmenn eiga eftir að ræða skýrsluna sín á milli. mbl.is/Kristinn Magnússon

Velferðarnefnd fékk í morgun til sín þau Önnu Guðmundu Ingvars­dótt­ur, aðstoðarfor­stjóra Íbúðalána­sjóðs, og Gísla Gísla­son, hafn­ar­stjóra Faxa­flóa­hafna, sem jafnframt eru formenn átakshóps um aukið fram­boð á íbúðum og aðrar aðgerðir til að bæta stöðuna á hús­næðismarkaði.

Átakshópurinn kynnti hugmyndir sínar í byrjun síðustu viku.

„Við buðum formönnum átakshópsins að koma og upplýsa okkur um vinnuna og útskýra tillögurnar fyrir okkur,“ segir Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata og formaður velferðarnefndar.

Eingöngu hafi verið um upplýsingafund að ræða og nefndarmenn eigi alveg eftir að ræða það sem þar kom fram sín á milli. „Ég býst við að við gerum það á mánudag,“ segir Halldóra og telur ekki útilokað að fleiri eigi eftir að verða fengnir á fund nefndarinnar til að ræða um skýrsluna.

„Mér sem formanni velferðarnefndar finnst mjög mikilvægt að við fylgjumst mjög vel með þessum kjaramálum og allri þeirri vinnu sem er í kringum þau og þá húsnæðismálunum sérstaklega. Þau eru stór hluti af kröfum verkalýðshreyfingarinnar.“

Komu tillögur að úrbótum

Nefndin fékk einnig til sín gesti vegna stjórnarfrumvarps um ófrjósemi sem heilbrigðisráðherra lagði fram á síðasta þingi, en frumvarpinu er ætlað að tryggja einstaklingum sjálfsforræði til að taka ákvörðun um ófrjósemisaðgerð.

„Þetta voru líka fyrstu gestir,“ segir Halldóra en fulltrúar Öryrkjabandalagsins, Þroskahjálpar,  landlæknis og Landspítala kynntu nefndinni sín viðhorf. „Við eigum þó líklega eftir að bjóða fleirum og við munum væntanlega líka funda með heilbrigðisráðuneytinu,“ bætir hún við og segist ekki greina að nein andstaða sé við frumvarpið „Það komu þó náttúrulega tillögur að úrbótum sem við tökum til greina og skoðum sem nefnd.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert