Mæti ekki öðruvísi en brosandi á æfingu

Arnar Þór Geirsson hoppar upp í skallabolta í leik Vals …
Arnar Þór Geirsson hoppar upp í skallabolta í leik Vals gegn Haukum 2016. mbl.is/Jakob Fannar

„Leikmanni sem líður ekki vel getur ekki spilað á hámarksgetu nema til skamms tíma og á endanum leiðir vanlíðan alltaf til verri frammistöðu,“ segir Arnar Sveinn Geirsson, knattspyrnumaður hjá Val, sem fjallar um andlega heilsu íþróttamanna og klefamenningu í íþróttum á ráðstefnu um íþróttir og ofbeldi í Háskólanum í Reykjavík í dag.

„Erindið fjallar um það hvernig það er orðið eðlilegt að það sé allt rosalega yfirborðskennt, að íþróttafólk sé að mæta í vinnuna og getur ekki liðið eins og því líður,“ útskýrir Arnar Sveinn.

„Pressan er alltaf sú að þú mætir á æfingu á hverjum einasta degi og gerir þitt besta. Frammistaðan á að vera upp á tíu og þú átt að taka framförum frá degi til dags. Frammistaðan er það sem skiptir öllu máli. Ef þú er lélegur á einni æfingu þá taka allir eftir því,“ segir Arnar Sveinn.

Geti átt slæma daga án þess það bitni á frama

Að stunda íþróttir sé vinna en ólík að því leytinu til að í venjulegu starfi geti fólk átt slæma daga án þess að það bitni á frama þeirra. „Auðvitað er krafa á að þú standir þig vel, en þú getur átt erfiða daga þar sem þér líður illa og ert ekki andlega tilbúinn, en svo stendurðu upp aftur.“

„Íþróttafólk þorir ekki að mæta öðruvísi en hresst og kátt á æfingu, með brosið á lofti og þannig myndast þessi yfirborðskennda stemmning. Ég veit ekki hversu oft ég hef átt erfiðan dag en þegar ég labba inn í klefa þá er brosið sett upp, brandararnir fara á fjöldaframleiðslu og það er eins og það sé allt í himnalagi,“ segir Arnar Sveinn.

Arnar Sveinn segir leikmenn ekki vilja gefa þjálfaranum ástæðu til …
Arnar Sveinn segir leikmenn ekki vilja gefa þjálfaranum ástæðu til að velja sig ekki í liðið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hann segir að sem dæmi hafi liðsfélagi hans misst pabba sinn á miðju keppnistímabili í fyrrasumar. Fólk hafi vottað honum samúð og einnar mínútu þögn höfð fyrir leik. „Út á við virkaði eins og það væri verið að gera eitthvað en það var í rauninni ekkert unnið með þetta.“

Þú opinberar ekki veikleika fyrir þjálfaranum

„Hann var ekki að fara að koma til þjálfarans að fyrra bragði og segja að honum liði illa. Þjálfarinn er sá sem velur í liðið og þú opinberar ekki veikleika fyrir þjálfaranum, ekki eins og menningin er í dag,“ segir Arnar Sveinn. „Þú gerir það ekki af því þá ertu að gefa honum ástæðu til að velja þig ekki í liðið, og þú hikar við að nefna þetta við sjúkraþjálfara og lækna af því skilaboðin munu að öllum líkindum berast í þjálfarann.“

Arnar Sveinn segir andlegan stuðning við íþróttamenn ekki nægilega mikinn, og að eftir ráðstefnu um andlega heilsu fótboltamanna í Hollandi á síðasta ári sé honum ljóst að íslensk íþróttahreyfing er aftarlega á merinni þegar að henni kemur.

„Þar sá ég bersýnilega hversu aftarlega við erum í andlegri heilsu, en á sama tíma sé ég tækifæri fyrir okkur til að vera leiðandi í þessum málaflokki. Við höfum sérfræðingana, þekkinguna og öll þessi flottu íþróttafélög og þetta flotta íþróttafólk sem skarar framúr á sínu sviði. Við höfum allan grunn til að tækla þetta vandamál.“

Arnar Sveinn segir það allra hag að íþróttafólki líði vel og að það hafi tækifæri til að koma sinni líðan á framfæri. „Andleg heilsa íþróttafólks þarf að verða jafn mikilvæg líkamlegri heilsu þess. Það er synd ef við förum ekki aðeins að vakna.“

mbl.is