Meinsemd sem viðgengst hér á landi

Birgir hélt á spjaldi þar sem stóð NotInMyParliament og skoraði …
Birgir hélt á spjaldi þar sem stóð NotInMyParliament og skoraði á þingforseta að prenta spjöld með íslenskum texta, taka mynd af þingmönnum sem sýni að þeir berjist gegn kynferðislegu ofbeldi gegn þingkonum. Ljósmynd/Alþingi

Daglega verða þingkonur í Evrópu fyrir kynferðislegu ofbeldi,“ sagði Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins á Alþingi í dag. Hann og Rósa Björk Brynjólfsdóttir ræddu niðurstöður Evrópuráðs um kynferðislegt ofbeldi, líkamlegt og andlegt, gagnvart þingkonum.

Birgir benti á að rúmlega 40% af þingkonum í þjóðþingum Evrópu hafi orðið fyrir kynferðislegri áreitni og í 70% tilfella eru gerendur karlkyns þingmenn. 50% eða helmingur þingkvenna hefur orðið fyrir kynferðislegum athugasemdum þar sem mikill meginhluti gerenda eru karlkyns þingmenn.

Í rannsókninni kemur jafnframt fram að afleiðingar þessa fyrir þingkonur eru margvíslegar; kvíði, svefnleysi og ýmis heilsufarsvandamál, auk þess hefur þetta neikvæð áhrif á öll störf þeirra og framgang í stjórnmálum,“ sagði Birgir.

Hann sagði að það væri í höndum karlkyns þingmanna að uppræta þessa miklu meinsemd sem viðgangist í öllum þjóðþingum Evrópu, einnig hér á landi. 

Sá sem hér stendur sótti þing Evrópuráðsins í síðustu viku ásamt Rósu Björk Brynjólfsdóttur og Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur. Á þinginu var hleypt af stokkunum átaki gegn kynferðislegu ofbeldi í þjóðþingum. Átakið heitir á ensku, með leyfi forseta, „Not in my Parliament“, sem mætti þýða á íslensku „Ekki á okkar þingi“,“ sagði Birgir. Hann skoraði á þingmenn að berjast gegn kynferðislegu ofbeldi gegn þingkonum. „Stöndum saman.“

mbl.is