Ætla að reisa skjólstöðvar við fjarstæði

Svona gætu skjólstöðvarnar á fjarstæðum Keflavíkurflugvallar litið út, samkvæmt tillögu …
Svona gætu skjólstöðvarnar á fjarstæðum Keflavíkurflugvallar litið út, samkvæmt tillögu sem unnið er með. Teikning/VSÓ og Arkís

Til stendur að byggja fjórar 250-300 fermetra byggingar á fjarstæðum Keflavíkurflugvallar, til þess að verja farþega sem ganga um borð í flugvélar á fjarstæðum fyrir veðri og vindum.

Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri tækni- og eignasviðs Isavia, staðfestir við mbl.is að stjórn Isavia hafi samþykkt að bjóða út byggingu þessara mannvirkja, en teikningar af þeim má sjá hér að neðan. Vonast er til þess að hægt verði að fara í útboð í vor.

Stöðvar sem þessar kallast „apron boarding stations“ á ensku. Þær mætti til dæmis nefna skjólstöðvar á íslensku, en starfsmenn Isavia kalla mannvirkin reyndar „byrðingarhús á fjarstæðum“.

Flugvélar WOW air í fjarstæðum á Keflavíkurflugvelli.
Flugvélar WOW air í fjarstæðum á Keflavíkurflugvelli. mbl.is/Eggert

Bætt öryggi og betri þjónusta

Guðmundur Daði lýsir því fyrir blaðamanni að farþegar muni fara með rútum frá flugstöðinni að nýju mannvirkjunum, ganga síðan inn í þau og svo upp um eina hæð og inn í flugvélina í gegnum landgang.

„Þeir munu ganga um borð í gegnum mannvirki í staðinn fyrir að vera úti fyrir veðri og vindum á Keflavíkurflugvelli,“ segir Guðmundur Daði, en verkefnið er liður í því að bæta gæði þjónustu og öryggi á fjarstæðum vallarins.

Teikning/VSÓ og Arkís

Víða notað þar sem veðurfar er svipað

Skjólstöðvar sem þessar er að finna víða á stórum flugvöllum þar sem loftslag er svipað og hér, til dæmis í München, þar sem þetta hefur reynst vel að sögn Guðmundar Daða.

Hann bætir við að byrjað verði á fjórum mannvirkjum, en að stöðvarnar gætu orðið enn fleiri, verði reynslan af þeim góð.

Fjarstöðvar standa á fjarstæðum á flugvellinum í München í Þýskalandi …
Fjarstöðvar standa á fjarstæðum á flugvellinum í München í Þýskalandi og hafa gefið góða raun. Gervihnattamynd/Google Maps
mbl.is
Loka