Allir græði nema svindlararnir

Halldór Grönvold við kynningu skýrslunnar í morgun.
Halldór Grönvold við kynningu skýrslunnar í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við erum sammála um markmiðið, sem er að tryggja að þeir sem hér starfa njóti þeirra launa og réttinda sem þeim ber, og að fyrirtæki sem virða lög og kjarasamninga lendi ekki í ómögulegri samkeppnisstöðu,“ segir Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands, um skýrslu samstarfshóps um undirboð og brotastarfsemi á vinnumarkaði sem kynnt var í dag.

„Það sem skiptir líka miklu máli er að í þessum hópi voru fulltrúar allra þeirra sem málið varðar, ráðuneytanna, stjórnsýslustofnana sem bera ábyrgð á vinnumarkaðnum, og fulltrúar bæði launafólks og atvinnurekenda á vinnumarkaði.“

Halldór segir engan aðilanna hafa sett nokkurn fyrirvara á þær tillögur sem lagðar eru til í skýrslunni og að líta megi svo á að allir séu sammála um að hrinda þeim í framkvæmd. „Sumt tekur tíma og þarf að útfæra frekar á meðan annað er nánast tilbúið og hægt að keyra strax í gegn.“

„Þú tryggir ekki eftir á og færð ekki annað tækifæri“

„Við höfum sett þetta upp þannig að annars vegar þarf að styrkja reglur þannig að auðveldara sé að fylgja þeim eftir, og hins vegar þarf að efla eftirlit og eftirfylgni.“

Halldór segir mikilvægt að þeir sem hugleiði að brjóta af sér eða svindla viti að þeir fái ekki annað tækifæri. „Krafa okkar er sú að þú tryggir ekki eftir á og færð ekki annað tækifæri ef þú stundar brotastarfsemi.“

Í tillögunum er ekki aðeins kveðið á um átak gegn brotastarfsemi með tilliti til atvinnurekenda, heldur eiga þær einnig að koma sér vel fyrir starfsfólk sem brotið er á. Meðal annars er lagt til að útfært verði hvernig fyrirbyggja skuli alvarleg og ítrekuð brot gegn starfsmönnum með því að útvíkka refsiábyrgð lögaðila og fyrirsvarsmanna.

Lítill tilgangur í kjarasamningum sé ekki eftir þeim farið

„Fyrir okkur sem verkalýðshreyfingu er grundvallaratriði að launafólk búi hér við öryggi og þau réttindi sem samið er um. Það er lítill tilgangur í kjarasamningum ef fólk nýtur ekki þeirra réttinda sem í þeim felast,“ segir Halldór.

Ríkissjóður muni svo sannarlega einnig njóta góðs af tillögunum, sérstaklega þeim sem lúta að kennitöluflakki. „Kennitöluflakk kostar samfélagið tugi milljarða á ári. Í tillögum okkar og Samtaka atvinnulífsins höfum við bent á að áætla megi út frá reynslu nágrannalandanna að fyrir hverja krónu sem sett er í skattaeftirlit fáum við 7 krónur til baka. Það græða allir á að þetta sé í lagi nema svindlararnir.“

mbl.is