Flokksráðsfundur haldinn fljótlega

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Miðflokkurinn leitar leiða til þess að halda flokksráðsfund fljótlega.

Að sögn Jóns Péturssonar, aðstoðarmanns Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns flokksins, verður fundurinn haldinn meðan á þessu þingi stendur en samkvæmt lögum flokksins skal halda flokksráðsfundi á hausti og vori.

Boða þarf til fundanna með ákveðnum fyrirvara eins og gengur og gerist.

Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins, hefur farið þess á leit við Sigmund Davíð að flokksráðsfundur verði haldinn eins fljótt og auðið er til að fara yfir stöðuna vegna Klaustursmálsins.

Í yfirlýsingu sem Birgir sendi frá sér í gær kom fram að félagar hans í flokknum sem sneru aftur til þingstarfa eftir leyfi vegna Klaustursmálsins eigi ekki að ganga að trúnaðarstörfum sínum fyrir flokkinn vísum. Átti hann þar við þingflokksformanninn Gunnar Braga Sveinsson og Bergþór Ólason.

Birgir Þórarinsson, í miðjunni, á Alþingi.
Birgir Þórarinsson, í miðjunni, á Alþingi. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is