„Gefur góða von um framhaldið“

Ásmundur Einar er ánægður með samheldni samstarfshópsins.
Ásmundur Einar er ánægður með samheldni samstarfshópsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þarna eru mjög fjölþættar tillögur, sem ég er ánægður með, og einnig hvað allir sem að þessu koma eru sammála um heildarnálgunina. Það er mikið ánægjuefni og gefur góða von um framhaldið,“ segir Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, um skýrslu um undirboð og brotastarfsemi á vinnumarkaði sem kynnt var í ráðuneytinu í dag.

Skýrslan var unnin í samstarfshópi þar sem áttu fulltrúa Alþýðusam­band Íslands, at­vinnu­vega- og ný­sköp­un­ar­ráðuneyti, Banda­lag há­skóla­manna, BSRB, dóms­málaráðuneyti, fjár­mála- og efna­hags­ráðuneyti, embætti rík­is­lög­reglu­stjóra, embætti rík­is­skatt­stjóra, Sam­band ís­lenskra sveit­ar­fé­laga, Sam­tök at­vinnu­lífs­ins, Vinnu­eft­ir­litið og Vinnu­mála­stofn­un.

Tillögur samstarfshópsins fela meðal annars í sér átak gegn kennitöluflakki, að þau stjórnvöld sem fara með valdheimildir á vinnumarkaði geri með sér formlegt samstarf gegn brotstarfsemi með samráði, að stjórnvöldum verði veittar lagaheimildir til að taka á brotastarfsemi, að sett verði skylda til keðjuábyrgðar um opinber innkaup, tryggð verði viðeigandi aðstoð og vernd fyrir fórnarlömb vinnumansals og nauðungarvinnu, og að bætt verði verulega upplýsingagjöf til erlendra starfsmanna.

Ásmundur Einar segir næstu skref vera að kynna skýrsluna formlega fyrir ríkisstjórn og í kjölfarið verði nánari útfærsla tillagnanna rædd, svo sem innleiðing og tímasetningar.

Ráðherra er bjartsýnn á að skýrslan komi til með að liðka fyrir kjarasamningum, enda séu félagsleg undirboð á vinnumarkaði einn af þeim þáttum sem mikilvægt sé að taka á. „Óskað hefur verið eftir aðkomu stjórnvalda að lausn kjarasamninga. Við erum meðvituð um þetta og þess vegna viljum við sýna í verki að það er fullur vilji ríkisstjórnarinnar að gera breytingar á íslensku samfélagi þannig að þeir samningar sem samið er um standi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert