Grænlandsmót hjá Hróknum á laugardag

Ane Lone Bagger, utanríkisráðherra Grænlands, frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti …
Ane Lone Bagger, utanríkisráðherra Grænlands, frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, Jacob Isbosethsen, sendimaður Grænlands á Íslandi, og Hrafn Jökulsson, formaður Hróksins, fyrir utan sendiskrifstofu Grænlands á Íslandi. Ljósmynd/Aðsend

Jacob Isbosethsen, nýskipaður sendimaður Grænlands á Íslandi, verður heiðursgestur Hróksins og Kalak, vinafélags Íslands og Grænlands, í Pakkhúsi Hróksins við Geirsgötu 11 á laugardag.

Isbosethsen mun kynna sér starfsemi félaganna og leika fyrsta leikinn á Grænlandsskákmóti sem slegið er upp af þessu tilefni. Sendiskrifstofa Grænlands á Íslandi var opnuð á síðasta ári og segja félögin tvö opnunina marka mikil tímamót í samskiptum nágranna- og vinaþjóðanna í norðri.

Skákmótið hefst kl. 13:30 og eru félagar í Kalak, Hróknum og aðrir Grænlandsvinir hvattir til að mæta tímanlega og taka með sér gesti, í fréttatilkynningu um viðburðinn.

Tefldar verða hraðskákir, átta umferðir, en þar sem hámarksfjöldi keppenda er 18 eru áhugasamir hvattir til að skrá sig sem allra fyrst hjá hrafnjokuls [hjá] hotmail.com eða chesslion [hjá] hotmail.com. 

Fjölmörg verkefni á döfinni

Við þetta sama tækifæri verða kynnt verkefni Hróksins og Kalak á árinu, en þau verða fjölmörg.

„Fyrsti leiðangurinn heldur til Kulusuk í lok febrúar, og síðan rekur hver hátíðin aðra, vítt og breitt um hið stóra nágrannaland okkar, sem er tuttugu sinnum stærra en Ísland. Í haust er svo von á fjórtánda hópi grænlenskra barna frá austurströndinni, sem hingað eru boðin til að læra sund og kynnast íslensku samfélagi,“ segir í fréttatilkynningu frá félögunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert