Sjötugur Diddi Frissa eldhress af sjósundi

Sigurður Friðriksson fer nánast daglega í sjósund í Nauthólsvík. Sjórinn …
Sigurður Friðriksson fer nánast daglega í sjósund í Nauthólsvík. Sjórinn hefur verið kaldur í vikunni. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég átti ekki von á því þegar ég væri hættur á sjónum að ég færi í sjóinn,“ segir Sigurður Friðriksson skipstjóri eða Diddi Frissa eins og hann er kallaður. Hann er rúmlega sjötugur og alinn upp í Sandgerði.

„Ég hætti til sjós árið 2006 og flutti frá Sandgerði til Reykjavíkur. Félagi minn, Ingvar Þórðarson, var búinn að reyna í langan tíma að fá mig með sér í sjósund,“ segir Sigurður sem barist hefur við liðagigt frá unglingsaldri og var á leið í hjartaþræðingu í lok janúar 2012.

„Ég var á því að ég mætti alls ekki fara í kaldan sjóinn, bæði vegna gigtarinnar og taldi það gefa augaleið að ég gæti ekki farið í sjóinn fyrr en í fyrsta lagi eftir að búið væri að laga kransæðastíflu hægra megin við hjartað,“ segir Sigurður. Hann er þakklátur Ingvari fyrir að gefast aldrei upp og hringja í hann daglega til þess að fá hann í sjósund.

„Þriðja janúar 2012 var fallegt veður og sjórinn mjög kaldur. Ingvar hringdi og sagði við mig að þetta væri dagurinn. Ég vildi bíða fram yfir hjartaþræðingu en hann sagði að þess þyrfti ekki. Ég ákvað þann daginn að stökkva í sjóinn með honum,“ segir Sigurður sem sér ekki eftir þeirri ákvörðun. Tæpum fjórum vikum seinna var hann mættur í hjartaþræðingu til að losa stífluna hægra megin við hjartað en hún var þar ekki lengur og engin skýring hefur fengist á því hvernig hún losnaði. Sigurð grunar að sjósundið eigi sinn þátt í því.

Sjá samtal við Sigurð í heild á baksíðu Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert