Segir skattatillögur ASÍ auka jaðarskatta

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.

Það varðar mjög miklu fyrir samfélagið allt að það takist að ljúka samningum á vinnumarkaði, við almenna markaðinn og hið opinbera,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálráðherra á Alþingi þegar Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, spurði hann meðal annars út í aðkomu stjórnvalda að kjarasamningum.

Logi sagði að þeir væru líklega sammála um að ríkisstjórnin þurfi að stíga stór skref til að liðka fyrir málum og benti þar á húsnæðismálin. Bjarni sagði að ríkisstjórnin hefði nú þegar með ýmsum aðgerðum liðkað fyrir málum.

Ég nefni aðgerðir í tengslum við fjárlög yfirstandandi árs, eins og sérstaka hækkun barnabóta til tekjulágra; breytingar á persónuafslætti og viðmiðunarmörkum á milli efra og neðra þreps; hækkun atvinnuleysisbóta á síðasta ári, mjög mikil hækkun, sem ríkisstjórnin beitti sér fyrir; lenging fæðingarorlofs — allt eru þetta atriði sem snerta vinnumarkaðinn,“ sagði Bjarni.

Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Logi sagði að Samfylkingin hefði talað fyrir hugmundum ASÍ um fjölþrepa skattkerfi sem fjármálaráðherra hefði ekki tekið vel í. Bjarni sagði að þær tillögur auki jaðarskattana.

Það sem mér finnst vera ákveðin hugsanavilla hjá mörgum í tengslum við uppbyggingu skattkerfisins í heild er að fara annars vegar fram á mjög hátt frítekjumark en síðan lága skatta fyrir þá sem koma fyrst inn í skattkerfið í tekjuskattinum. Menn verða að velja dálítið á milli þessara tveggja kosta. Ég hefði frekar verið talsmaður þess að vera með lægri frítekjumörk og byrja með lægri prósentur en þessi framstilling á málinu gerir það í raun og veru að verkum að við þurfum að hækka skattprósentuna of mikið á millitekjufólkið,“ sagði Bjarni.

mbl.is

Bloggað um fréttina