Hjörtur og fjölskylda fengu gleðitíðindi

Hjörtur Elías með medalíu sem hann fékk fyrir dugnað sinn …
Hjörtur Elías með medalíu sem hann fékk fyrir dugnað sinn er hann var í krabbameinsmeðferð í Svíþjóð. Ljósmynd/Úr einkasafni

„Hann er, eins og sagt er, á batavegi,“ segir Íris Jónsdóttir um níu ára son sinn, Hjört Elías Ágústsson, sem fékk á dögunum þær gleðifréttir að krabbamein sem hann hefur barist við undanfarið ár væri horfið og að það væru „engir vefir eða neitt í gangi í líkamanum.“

Hjörtur Elías fór í jáeindaskanna á Landspítala í janúar og niðurstaða rannsóknarinnar var eins jákvæð og hún hefði mögulega getað verið.

Íris segir í samtali við mbl.is að það hafi verið æðislegt að fá þessar fréttir, enda hafi læknar varað hana við því að búast mætti við því versta, þar sem Hjörtur Elías greindist með krabbamein í ristlinum í maí í fyrra, eftir að hann hafði hafið meðferð við krabbameini í eitlum, sem hann greindist með í febrúar.

„Tíðindin eru yndisleg, en verkefnið er ekki búið,“ segir Íris, sem hefur rætt opinskátt við Morgunblaðið og fleiri fjölmiðla um erfið veikindi sonar síns, sem þurfti að dvelja á einangrunardeild fyrir krabbameinssjúka á Karólínska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi í um fjóra mánuði í fyrra, en þar undirgekkst hann geislameðferð og beinmergsskipti.

Hjörtur Elías þarf áfram að fara í reglulegar blóðprufur og í lok þessa mánaðar fer hann einnig aftur til Svíþjóðar, í eftirfylgni eftir beinmergsskiptin, þegar sex mánuðir verða liðnir frá þeirri aðgerð. Áfram munu læknar svo fylgjast reglulega með Hirti í 2-3 ár.

„Hann grét í fanginu á mér“

En tíðindin eru gleðileg fyrir fjölskylduna, sem hefur átt erfitt ár. Hjörtur Elías er þegar byrjaður í aðlögun í skólanum sínum og er farinn að vera þar klukkustund á dag, en stefnt er að því að hann byrji að mæta á fullu í skólann í mars. Íris segir son sinn átta sig á því að nú horfi til bjartari tíma.

 „Þegar að læknirinn hringdi í mig og sagði mér tíðindin, þá hljóp hann til mín og sagði: „Mamma, mamma, hvað sagði læknirinn, er ég ekki með krabbamein lengur?“ og ég sagði: „Nei, það er allt horfið ástin mín, það eru engir vefir lengur eða neitt í líkamanum.“

Hjörtur Elías fyrir utan sjúkrahúsið í Stokkhólmi í fyrra.
Hjörtur Elías fyrir utan sjúkrahúsið í Stokkhólmi í fyrra. Ljósmynd/Úr einkasafni

Hann grét í fanginu á mér. Hann fattaði alveg að þarna væri hann ekki veikur lengur eins og hann var í byrjun. Hann vissi það alveg að þetta spítalalíf væri búið og því fylgdi léttir,“ segir Íris.

Íris segir árið frá því að Hjörtur greindist hafa verið gríðarlega erfitt, en hún er einstæð móðir með þrjú börn. Fjölskyldan dvaldi öll saman í Stokkhólmi á meðan Hjörtur var í meðferð þar.

„Ég horfði bara á þetta sem einhvern þröskuld í lífinu sem þyrfti að yfirstíga. Ég tók bara einn dag í einu, komast yfir hann, komast yfir hvern klukkutíma fyrir sig. Ég veit ekki einu sinni hvernig ég náði að standa í lappirnar allan tímann,“ segir Íris.

Mygla setti strik í reikninginn

Vatnsleki og mygla sem kom upp á baðherbergi á heimili fjölskyldunnar í Árbænum bætti svo ekki úr skák, en viðgerð á baðherberginu kostaði um það bil þrjár milljónir króna, sem bætti fjárhagsáhyggjum ofan á veikindin.

Hjörtur Elías mátti auk þess ekki koma heim í þær aðstæður, með bælt ofnæmiskerfi eftir lyfjameðferðir, sem varð til þess að fjölskyldan þurfti að flytjast til móður Írisar í þrjár vikur, en loks komust þau heim, þremur dögum fyrir jól.

Það horfir þó til betri vegar, en Íris segir að Hjörtur sé orðinn mjög spenntur fyrir ferð þeirra til Stokkhólms í eftirfylgni, þar sem hann geti núna í fyrsta skipti fengið að spóka sig um í Svíþjóð og sjá eitthvað annað þar í landi en ganga Karólínska sjúkrahússins.

Styrktarreikningur fyrir Hjört Elías er enn opinn. Núm­er hans er: 0115-05-010106, kennitala: 221009-2660.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert