Orðaforði ekki algildur mælikvarði

Susan Rafik Hama, doktorsnemi á menntavísindasviði Háskóla Íslands.
Susan Rafik Hama, doktorsnemi á menntavísindasviði Háskóla Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Léleg íslenskukunnátta kemur í sumum tilvikum í veg fyrir að innflytjendur séu ráðnir til starfa. Susan Rafik Hama, doktorsnemi á menntavísindasviði Háskóla Íslands, segir mikilvægt að leggja meiri áherslu á íslenskukennslu þegar fólk flytur hingað til lands. Eins sé mikilvægt að auka fræðslu á alls konar þáttum sem snerta íslenskt samfélag. Til að mynda í hvað fara skattar fólks, segir hún.

Susan segir algengt að innflytjendur, bæði flóttafólk sem og aðrir, hafi samband hana og eiginmann hennar, Salah Karim Mahmood, og biðji þau um aðstoð við atvinnuleit og ýmis önnur mál á Íslandi. Hún segir að vegna þess að þau tali íslensku sé oft bent á þau þegar fólk er að sækja um vinnu.

Susan segir að þegar hún hringi í atvinnurekendur sé algengt að þeir spyrji hvort hún sé að leita að vinnu og eru reiðubúnir til þess að ráða hana strax til starfa þar sem hún talar tungumálið. Þegar hún segir að hún sé aðeins að aðstoða aðra, fólk sem kemur frá Asíu og Austurlöndum og tali litla sem enga íslensku en skilji smá, koma oft vöflur á viðkomandi. Stundum er viðkomandi boðaður í viðtal eða beðinn um að senda umsókn en síðan ekki söguna meir. Svörin sem hún fái séu þau að tungumálakunnáttan hafi komið í veg fyrir ráðningu.

Gefum fólki rými til að stíga fyrstu skrefin

„Tungumálaþekking er mjög mikilvæg og rauði þráðurinn þegar kemur að vinnumarkaði. En við megum ekki mæla hæfileika fólks aðeins út frá orðaforða þess í íslensku. Hæfileikar fólks til þess að læra tungumál eru mismunandi og ekki hægt að bera saman fólk sem hefur framhaldsskólamenntun og þá sem kannski hafa aldrei gengið í skóla. Eins er fólk mislengi að læra tungumál. Ef við gefum þessu fólki ekki rými til þess að taka fyrstu skrefin á vinnumarkaði þá endar þetta með því að fólk lokast inni á heimilum sínum. Þetta hefur einnig áhrif á komandi kynslóðir, það er börn þessa fólks sem telur sig ekki eiga möguleika á framtíð. Kannski fólk með háskólagráðu sem ekki er gefið tækifæri á vinnumarkaði og börn sem hafa upplifað slíkt með foreldra sína sjá litla þýðingu í að leggja á sig framhaldsnám ef það skilar ekki einu sinni starfi í framtíðinni,“ segir Susan sem vinnur að doktorsverkefni um velgengni innflytjenda og flóttamanna í framhaldsskólum á Íslandi.

„Fræðsla er mikilvæg“

Susan hefur rætt þetta við fólk sem býr annars staðar á Norðurlöndunum, svo sem í Svíþjóð og Noregi, en þar er lögð áhersla og í raun sú skylda á fólk að læra tungumálið. 

„Fræðsla er mikilvæg,“ segir Susan og ekki bara fyrir afmarkaða hópa bætir hún við. Þar vísar hún til þess að mikilvægt sé að karlar og konur fái sameiginlega fræðslu um ákveðin málefni sem eiga erindi við alla. Til að mynda skóla- og leikskólamál, ofbeldi og skattamál svo fátt eitt sé nefnt til sögunnar. Í öðrum málaflokkum getur verið betra að kynskipta fræðslunni. 

Hún segir að það eigi að vera skylda hins opinbera að fræða innflytjendur um þessi mál og tekur skattamálin sem dæmi. „Manneskja sem fer yfir íslenskan launaseðil sér að það fer hátt hlutfall tekna hennar í skatta og ekkert útskýrt nánar. Þetta getur valdið því að fólk freistast til þess að vinna svart því það veit ekki að skattarnir fara í að greiða skólagöngu barna þeirra, heilbrigðisþjónustu, snjómokstur og fleira,“ segir Susan.

Hún segir að hér sé aðeins gerð krafa um ákveðna íslenskukunnáttu þegar sótt er um ríkisborgararétt en engar kröfur séu gerðar til málakunnáttu þegar fólk er hér á vinnumarkaði eða býr hér án þess að vera íslenskir ríkisborgarar.

„Ef fólk yrði skyldað til þess að sækja fræðslu á hverjum degi á meðan fólk er að komast inn í íslenskt samfélag þá tryggir það bæði kennslu í tungumálinu sem og í öðrum hlutum sem varða íslenskt samfélag. Best væri ef kennslan væri hluti af deginum því það getur verið erfitt að drífa sig af stað í íslenskutíma eftir langan vinnudag. Þannig sé það í löndum eins og Noregi og Svíþjóð sem skilar sér í oft betri tungumálaþekkingu fólks,“ segir Susan.

Hún segir að ekki megi gleyma því að kennsla fyrir fullorðna er allt annað en kennsla barna og taka verði mið af þessu þegar fólk er ráðið til starfans. Auk þess skipti kennslustaður, uppröðun í stofu o.fl. miklu máli. Ekki síst ef fólk kemur frá ólíkum menningarheimum.

Susan segir mikilvægt að það séu ekki bara þeir sem eru á vinnumarkaði sem fái kennslu í tungumálinu því foreldri sem starfar heima þarf að geta aðstoðað börn sín við heimanám og átt í samskiptum við skóla og aðra foreldra. Það er erfitt ef ekki er boðið upp á fræðslu fyrir þennan hóp og eykur líkur á einangrun viðkomandi og jafnvel barnanna líka. 

Slæðan kemur ekki í veg fyrir hæfni

Eitt af því sem Susan nefndi í viðtali við mbl.is fyrir rúmu ári síðan voru ranghugmyndir sem ríkja í garð kvenna sem bera slæðu (hijab).

„Sum­ir Íslend­ing­ar eru með rang­hug­mynd­ir um slæðuna og telja að hún sé kúg­un­ar­tæki karla í garð kvenna. Jafn­framt telja sum­ir að kon­ur frá Mið-Aust­ur­lönd­um hafi ekk­ert hlut­verk og séu und­ir hæln­um hjá karl­in­um. Það er líka rangt en hlut­verka­skipt­ing­in er kannski ekki ná­kvæm­lega sú sama og er hér. Til að mynda er rekst­ur heim­il­is­ins oft á herðum kon­unn­ar og upp­eldi barna á meðan karl­inn vinn­ur meira á al­menn­um vinnu­markaði. Upp­eldi barn­anna er hlut­verk sem ekki á að van­v­irða,“ sagði Sus­an í viðtali við mbl.is í nóvember 2017.

Susan segir að konur sem beri slæður eigi ekki að líða fyrir það á íslenskum vinnumarkaði enda breyti slæðan engu um hæfileika og færni kvenna. „Í ríkjum þar sem margir múslimar búa eru konur læknar, lögmenn, kennarar og hvað sem er og þær geta verið með slæðu í vinnunni. Þetta á að vera eins hér á landi,“ segir Susan.

„Stundum þurfa innflytjendur á enskukennslu að halda hér á landi …
„Stundum þurfa innflytjendur á enskukennslu að halda hér á landi því það er mjög erfitt og nánast ómögulegt að stunda háskólanám á Íslandi ef fólk er ekki með enskukunnáttu,“ segir Susan. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Spurð um hvenær sé best að hefja fræðslu til að mynda fyrir kvótaflóttamenn sem hingað koma segir Susan fólk sem er til að mynda að koma frá stríðshrjáðum svæðum ekki alltaf reiðubúið til þess að fara strax á vinnumarkað og taka verði tillit til aðstæðna fólks og gefa því færi á að fikra sig inn á vinnumarkað samhliða íslenskunámi og annarri fræðslu. 

„Stundum þurfa innflytjendur á enskukennslu að halda hér á landi því það er mjög erfitt og nánast ómögulegt að stunda háskólanám á Íslandi ef fólk er ekki með enskukunnáttu. Mjög mikið af námsefninu er á ensku auk þess sem hluti kennslunnar fer oft fram á ensku. Enskan er líka oft það tungumál sem notað er í samskiptum og við að útskýra. Ég get ekki búist við því að mínir leiðbeinendur geti talað og skilið kúrdísku sem er mitt móðurmál,“ segir Susan. 

Hún byrjaði fljótlega í íslenskunámi eftir að hún hún kom til Íslands árið 2000 og tók fimm áfanga hjá málaskólanum Mími. Hún hefur síðan kennt fjölmörg námskeið þar en hún lærði auk þess íslensku við Háskóla Íslands. Hún hefur einnig lokið MA-námi frá Háskóla Íslands en MA-ritgerð hennar nefnist „Að brjótast úr viðjum vanans“ og fjallar um áhrif menningar og félagslegrar stöðu kvenna frá Mið-Austurlöndum á þátttöku þeirra í símenntun á Íslandi.

Doktorsverkefni hennar er rannsókn á líðan erlendra ungmenna í íslenskum framhaldsskólum. Hún segist vonast til þess að ljúka rannsókninni á næsta ári en þar er meðal annars fjallað um það sem vel hefur gengið hjá ungum innflytjendum. Þetta er fyrsta slíka rannsóknin hér á landi segir Susan og bendir á að oft vill brenna við að einblínt sé á það sem miður fer en svo er alls ekki alltaf. 

„Sumum gengur mjög vel, læra tungumálið, eignast vini og ljúka bæði framhaldsskólanámi og háskólanámi. Hér skipta fyrirmyndir miklu máli. Mikilvægi fyrirmyndar endurspeglast í því þegar fólk er að fara að gera svipaða hluti eða að minnsta kosti reyna að gera þá. 

Doktorsverkefni Susan er rannsókn á líðan erlendra ungmenna í íslenskum …
Doktorsverkefni Susan er rannsókn á líðan erlendra ungmenna í íslenskum framhaldsskólum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ég er fyrsti Kúrdinn sem hefur háskólanám að nýju á Íslandi. Ég er með fimm há­skóla­gráður þegar ég legg sam­an námið mitt í heima­land­inu og Íslandi því ég lauk námi í kennslu­fræði til kennslu­rétt­inda á fram­halds­skóla­stigi þegar ég var búin með MA-námið 2012. Doktors­gráðan verður því sjötta há­skóla­gráðan mín,“ seg­ir Sus­an.

Sus­an hef­ur unnið fyr­ir Rauða kross­inn við mót­töku flótta­hópa hér á landi og hef­ur kennt á nám­skeiðum á hans veg­um þar sem hún kynn­ir ís­lenskt sam­fé­lag og er með fræðslu um menn­ingu. „Ég vona að ég sé góð fyrirmynd fyrir alla sem hingað koma,“ segir Susan og bætir við að mikilvægt sé fyrir Íslendinga að endurtaka ekki sömu mistökin sem aðrar þjóðir hafi gert. „Því þó að Íslendingar tali oft um mistök nágrannalandanna þá eru þeir að endurtaka sömu mistökin í sumum tilvikum,“ segir Susan.

mbl.is