Ósátt við frestun framkvæmda

Frá Kjalarnesi.
Frá Kjalarnesi. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Byggðaráð Borgarbyggðar hefur sent frá sér ályktun þar sem gerðar eru alvarlegar athugasemdir við að ákveðið hafi verið að flytja fjármagn frá fyrirhugaðri uppbyggingu vegarins á Kjalarnesi til annarra verkefna.

Í áliti meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis við afgreiðslu samgönguáætlunar fyrir helgi úr nefndinni kemur fram að framkvæmdum vegna breikkunar Vesturlandsvegar um Kjalarnes hafi verið frestað. Til hafi staðið að veita einum milljarði króna til verksins næstu tvö ár en sú fjárhæð verði lækkuð í 400 milljónir króna vegna tafa við verkhönnun. Þá hafi samningar við landeigendur ekki náðst. Samkvæmt upplýsingum mbl.is er vegurinn ein af þeim framkvæmdum sem hugmyndin er að fjármagna með sérstökum veggjöldum.

„Slík ákvörðun mun þýða mikla og óásættanlega seinkun á nauðsynlegum samgöngubótum milli höfuðborgarsvæðisins og Vesturlands miðað við þær áætlanir sem kynntar hafa verið af yfirvöldum samgöngumála. Óumdeilt er að vegurinn um Kjalarnes er hættulegur og hann ber ekki þá miklu umferð sem um hann fer,“ segir enn fremur í ályktun byggðaráðsins.

Þannig sé ástand vegarins orðin veruleg hindrun í uppbyggingu atvinnulífs og samfélaga í nágrenni höfuðborgarsvæðisins á Vesturlandi samanborið við aðrar samgönguæðar á milli höfuðborgarsvæðisins og nágrannabyggða. „Nauðsynlegt er því að fá upplýst á hvaða forsendum fjármagn er flutt frá fyrirhuguðum framkvæmdum á Kjalarnesi til annarra verkefna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert