Vildi halda sig fyrir utan málið

Sigurður Páll Jónsson, þingmaður Miðflokksins.
Sigurður Páll Jónsson, þingmaður Miðflokksins. mbl.is

„Mér hefur ekkert liðið sérstaklega vel yfir þessu,“ sagði Sigurður Páll Jónsson, þingmaður Miðflokksins, spurður um Klaustursmálið í útvarpsþættinum Þingvöllum á K100. Aðspurður hvers vegna hann hefði ekkert tjáð sig um málið lengst af sagði hann ástæðuna þá að hann hefði ekki átt aðkomu að málinu og viljað halda sig fyrir utan það.

Sigurður ítrekaði fyrri yfirlýsingar spurður um að hann væri ekki á leið úr Miðflokknum þátt fyrir frétt Fréttablaðsins fyrir helgi um annað. Aðspurður sagðist hann enn fremur ekki sammála Birgi Þórarinssyni, þingmanni Miðflokksins, að kalla þyrfti saman flokksráðsfund til að endurskoða skiptingu á trúnaðarstörfum.

Spurður hvort Klaustursmálinu ætti að vera lokið að hans mati svaraði Sigurður að hann vonaði það. Hann hafi sjálfur lýst því yfir að málinu hefði átt að vera lokið þegar forsætisnefnd Alþingis lýsti sig vanhæfa til þess að fjalla um málið. Þar með hafi ekki verið hægt að vísa málinu með eðlilegum hætti til siðanefndar þingsins.

Miðflokkurinn styrkt stöðu sína

Sigurður Páll var einnig spurður út í afgreiðslu veggjalda úr umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis fyrir helgi með stuðningi hans þrátt fyrir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður flokksins, hafi talað gegn þeim og gagnrýnt Sigurð Inga Jóhannsson, formann Framsóknarflokksins, fyrir að tala fyrst á móti veggjöldum og síðan með.

Sigurður Páll sagði að Miðflokksmenn hefðu alltaf sagt að vegakerfið væri komið að fótum fram og eitthvað þyrfti að gera í því. Þingflokkur flokksins væri sammála um að flýta þyrfti framkvæmdum.

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, vísaði því aðspurður á bug að stuðningur Sigurðar Páls við veggjöld hefði verið keyptur gegn stuðningi sjálfstæðismanna við að Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, yrði áfram formaður umhverfis- og samgöngunefndar. Formennskan í umhverfis- og samgöngunefnd væri byggð á samkomulagi stjórnarandstöðuflokkanna og það væri á þeim vettvangi sem það mál ætti heima.

Sigurður Páll var einnig spurður að því hvort hann teldi Miðflokkinn hafa styrkt stöðu sína í kjölfar Klaustursmálið í ljósi skoðanakannana sem sýnt hafa hann bæta við sig fylgi og sagðist hann vera þeirrar skoðunar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert