Framtíðin sker úr um Bakka

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, segir enn eftir að koma …
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, segir enn eftir að koma í ljós hvort fjárfesting ríkisins vegna uppbyggingar innviða á Bakka hafi verið góð. mbl.is/Eggert

„Það var alveg ljóst að ríkið myndi þurfa að leggja dálítið af mörkum og var álitið fjárfesting í þeim innviðum sem þyrfti að vera til staðar svo að atvinnuuppbygging gæti þróast þar,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, í samtali við mbl.is um kostnað sem fallið hefur á ríkissjóð vegna kísilversins á Bakka við Húsavík. Ákveðið var að ríkið myndi koma að uppbyggingu á svæðinu í ráðherratíð hans.

„Auðvitað er það aldrei gott þegar verkefni verða dýrari en menn áætluðu, en það var vitað að það væri einhver óvissa með það, sérstaklega hvað jarðgangnagerðin og vegtengingar myndu kosta,“ svarar hann spurður um þann kostnað sem hlaust vegna framkvæmdanna.

Í svari iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn Birgis Þórarinssonar, þingmanns Miðflokksins, hefur komið fram að kostnaður við jarðgöng og vegatengingar vegna kísilversins hafi kostað ríkissjóð 3,5 milljarða króna, en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir 1,8 milljörðum í verkefnið.

Steingrímur segir að litið hafi verið á innviðauppbygginguna sem mikilvægan lið í að gera svæðið að valkosti fyrir atvinnuuppbyggingu og að framkvæmdirnar gætu einnig stutt frekari uppbyggingu fjölbreyttrar atvinnustarfsemi á svæðinu.

Hann segir að vitað hafi verið að jarðgöngin væru dýrari kostur en vegur, jarðgöngin hafi hins vegar verið mun betri.

Vegurinn „hefði hins vegar spillt mjög möguleikum fyrir aðra starfsemi á höfðanum. Þar eru risin sjóböðin og hugsanlega hótel og fleira í framtíðinni, sem hefði náttúrulega ekki getað orðið ef menn hefðu skorið veg þar í gegnum höfðann,“ útskýrir Steingrímur.

Spurður hvort hann telji fjárfestinguna góða, svarar hann að framtíðin verði að skera úr um það þar sem enn eigi eftir að koma í ljós hvort nýting þessara innviða muni aukast með frekari atvinnuuppbyggingu. Hann segir þó mikilvægt að taka fram að innviðirnir hafi gert svæðið að valkosti fyrir atvinnurekstur.

mbl.is

Bloggað um fréttina