„Gat ekki með nokkru móti varið mig“

Ingibjörg Sólrún heyrði fyrst af bréfum Jóns Baldvins til Guðrúnar …
Ingibjörg Sólrún heyrði fyrst af bréfum Jóns Baldvins til Guðrúnar árið 2007. Ljósmynd/Rósa Braga

Jón Baldvin Hannibalsson brást ókvæða við þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þáverandi formaður Samfylkingarinnar, boðaði hann á sinn fund í aðdraganda Alþingiskosninga 2007 og óskaði eftir því að hann léti taka sig af lista Samfylkingarinnar, þar sem honum hafði verið boðið heiðurssæti.

Frá þessu greinir Ingibjörg Sólrún í Facebook-hópnum #metoo Jón Baldvin Hannibalsson. Mbl.is hafði samband við Ingibjörgu Sólrúnu og fékk leyfi til þess að vitna í það sem þar er greint frá.

Þetta sama ár hafði Ingibjörg Sólrún heyrt af bréfaskriftum Jóns Baldvins til systurdóttur eiginkonu hans, Guðrúnar Harðardóttur, og þegar hún komst að því að honum hefði verið boðið sæti á lista Samfylkingarinnar fyrir þingkosningar mælti hún sér mót við föður Guðrúnar sem lét hana hafa afrit af bréfum Jóns Baldvins og sagði henni að kæra hefði verið lögð fram.

Hafði enga heimild til að gera málið opinbert

Ingibjörg Sólrún segir þessa vitneskju hafa verið vandmeðfarna, enda hafi hún enga heimild haft til þess að gera málið opinbert. Engu að síður ákvað hún að boða Jón Baldvin á sinn fund, greina honum frá vitneskju sinni og óska eftir því að hann drægi sig af framboðslistanum.

Hún segir Jón Baldvin hafa brugðist ókvæða við og sagt að saksóknari myndi að öllum líkindum vísa málinu frá. Ingibjörg Sólrún sagði það engu breyta, söm væri gjörðin og að framkoma hans væri þess eðlis að hún vildi ekki hafa hann á lista flokksins.

Svo fór að Jón Baldvin lét taka sig af lista Samfylkingarinnar, en tveimur dögum seinna segir Ingibjörg Sólrún hann hafa mætt í Silfur Egils til þess að „básúna pólitískan ágreining sinn“ við formann Samfylkingarinnar sem hefði orðið til þess að honum hefði verið bolað úr heiðurssæti á lista.

„Hann vissi líka sem var að ég gat ekki með nokkru móti varið mig því þá hefði ég þurft að gera mál Guðrúnar, og hana þar með, að fjölmiðlamat sem ég átti ekkert með að gera. Ég átti því ekki annan kost en að þegja þunnu hljóði,“ skrifar Ingibjörg Sólrún.

Hafi sjálfur kosið að draga Samfylkinguna inn í málið

Hún segir Jón Baldvin gjarnan grípa til þess vopns að atlagan að honum sé runnin undan rifjum „þess fyrrverandi formanns Samfylkingarinnar sem hér skrifar,“ og að hún hafi ekki viljað leggja Jóni Baldvini það vopn í hendur með því að koma nálægt umfjöllun fjölmiðla þótt eftir því hafi verið leitað.

Nú hafi hann hins vegar sjálfur kosið að draga Samfylkinguna inn í málið. „Þannig að það er eins gott að allir viti hvernig hans mál blöstu við mér í ársbyrjun 2007.“

mbl.is