Ráðuneyti skoðar hlaupabólubólusetningar

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagði að almennar bólusetningar gegn hlaupabólu séu …
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagði að almennar bólusetningar gegn hlaupabólu séu til skoðunar í ráðuneytinu. mbl.is/Eggert

Sóttvarnalæknir hefur lagt það til við heilbrigðisráðuneytið að taka upp almennar bólusetningar gegn hlaupabólu hér á landi, samkvæmt svari Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Steinunnar Þóru Árnadóttur, þingmanns Vinstri grænna, á Alþingi í dag. Málið er til jákvæðrar skoðunar í ráðuneytinu.

„Mörg lönd hafa innleitt almenna bólusetningu gegn hlaupabólu,“ sagði heilbrigðisráðherra og bætti við að Bandaríkin hafi verið leiðandi í þeim efnum, en þar í landi hefur verið almenn bólusetning við hlaupabólu frá árinu 1996. Nokkur ár eru síðan bóluefni gegn hlaupaefni varð aðgengilegt hér á landi og fólk getur orðið sér úti um það á eigin kostnað.

Bóluefni fyrir einn árgang á um 40 milljónir

Svandís sagði meðal annars í svörum sínum að það væri talið samfélagslega hagkvæmt að bólusetja öll börn á Íslandi við hlaupabólu, vegna minni fjarveru foreldra frá störfum sínum.

Einnig kom fram í máli heilbrigðisráðherra að kostnaður við það að bólusetja einn fæðingarárgang væri um 40 milljónir, miðað við markaðsverð bóluefnisins án virðisaukaskatts, en líklega myndi hagstæðara verð fást eftir útboð á bóluefninu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert