RÚV mun taka til varna fyrir dómi

Lögmenn RÚV fara yfir málið.
Lögmenn RÚV fara yfir málið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögmenn Ríkisútvarpsins eru að fara yfir stefnu sem lögmaður Rositu YuF­an Zhang, eig­anda Sj­ang­hæ-veit­ingastaðanna, sendi á föstudag þar sem farið er fram á sex milljónir í miskabætur vegna fréttaflutnings. RÚV gerir að óbreyttu ráð fyrir að taka til varna fyrir dómi.

Þetta kemur fram í svari Magnúsar Geirs Þórðarsonar útvarpsstjóra við fyrirspurn mbl.is.

Auk þess að fara fram á áðurnefndar miskabætur er farið fram á 1,2 milljónir í bætur frá RÚV vegna birtingar og að ýmis ummæli verði dæmd dauð og ómerk. Er það vegna umfjöllunar frétta­stofu RÚV um veit­ingastaðinn Sj­ang­hæ á Ak­ur­eyri árið 2017.

Sæv­ar Þór Jóns­son, lögmaður Rositu, sagði við mbl.is að málið yrði sótt af festu og að hann telji að málagrundvöllurinn sé mjög sterkur.

Sj­ang­hæ-málið vakti mikla at­hygli og var fyr­ir­ferðar­mikið í fjöl­miðlum lands­ins fyrstu dag­ana í sept­em­ber 2017. Í fyrstu frétt ruv.is af mál­inu 30. ág­úst 2017 sagði meðal ann­ars: „Eig­andi veit­ingastaðar á Ak­ur­eyri er grunaður um vinnum­an­sal. Grun­ur leik­ur á að starfs­fólkið fái greidd­ar þrjá­tíu þúsund krón­ur á mánuði í laun og borði mat­araf­ganga af veit­ingastaðnum.“

Um­mæl­in eru meðal þeirra sem stefn­end­ur gera ósk um að verði dæmd dauð og ómerk.

Veitingastaðurinn Sjanghæ.
Veitingastaðurinn Sjanghæ. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Málið er rakið í stefnunni en þar kemur fram að stéttarfélaginu Einingu-Iðju hafi borist ábendingar um aðstæður starfsfólks á veitingastaðnum. Rætt var við fulltrúa stéttarfélagsins í kvöldfréttum RÚV 30. ágúst 2017, fyrir utan veitingastaðinn.

Stétt­ar­fé­lagið komst að þeirri niður­stöðu að þær upp­lýs­ing­ar um kjör starfs­manna sem fram kæmu í gögn­um sem aflað var við vinnustaðaeft­ir­litið stæðust al­menna kjara­samn­inga og launataxta sem giltu á veit­inga­hús­um. Grun­ur um man­sal reynd­ist því ekki á rök­um reist­um, sam­kvæmt at­hug­un stétt­ar­fé­lags­ins.

Í stefn­unni seg­ir að ljóst sé að starfs­menn Einingar-Iðju hafi aldrei staðfest annað en að ábend­ing hafi komið fram og grun­ur léki á að eitt­hvert mis­ferli væri í gangi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert