„Snýst um að vinda sér í grunnrannsóknir“

Katrín Jakobsdóttir og Jóhann Reynisson á Alþingi í dag. Blái …
Katrín Jakobsdóttir og Jóhann Reynisson á Alþingi í dag. Blái naglinn hefur á fjórum árum sent fimmtugum Íslendingum 16 þúsund heimapróf sem greina blóð í hægðum. mbl.is/Eggert

Jóhannes Reynisson, stofnandi Bláa naglans, fékk góðar móttökur þegar hann mætti á Alþingi í dag til þess að afhenda þingmönnum próf til greiningar á ristilkrabbameini ásamt þingmannabréfi, þar sem skorað er á íslensk yfirvöld að setja í lög áætlun um að styðja við rannsóknir sem snúa að snemmgreiningu á breytilegu erfðamengi í Íslendingum.

Blái naglinn hefur á fjórum árum sent fimmtugum Íslendingum 16 þúsund heimapróf sem greina blóð í hægðum. Jóhannes segir heimaprófin hafa hjálpað til við vitundarvakningu og að fjöldi þeirra sem mæti í ristilspeglun hafi margfaldast síðan átakið hófst.

„Heimaprófin hafa vakið athygli en við þurfum að horfa fram á veginn,“ segir Jóhannes, en í bréfi sínu til þingmanna bendir hann á að veita þurfi 500 milljónum króna til grunnkrabbameinsrannsókna, en árið 2018 hafi aðeins 55 milljónir verið settar í slíkar rannsóknir.

Blái naglinn fer einnig fram á það að unnið verði að snemmgreiningu á breytingum í erfðamengi þannig að hægt verði að finna mein í blóði áður en það finnst í líffæri.

„Þetta snýst um að vinda sér í grunnrannsóknir. Það er lykillinn,“ segir Jóhannes.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert