Vöruð við að rugga bátnum

Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi ráðherra, og Bryndís Schram eiginkona hans.
Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi ráðherra, og Bryndís Schram eiginkona hans. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Verst geymda leyndarmálið mitt er hatur mitt á þeim hjónum,“ segir í frásögn konu á bloggsíðunni metoo-jonbaldvin.blog.is þar sem hópur kvenna deilir frásögnum af kynnum sínum af Jóni Baldvini Hannibalssyni, fyrrverandi utanríkisráðherra og formanni Alþýðuflokksins. Vísar hún þar til Jóns og konu hans Bryndísar Schram.

Mbl.is hefur rætt við konuna um frásögn hennar sem hún staðfestir að sé hennar. Konan segir frá því að Jón Baldvin hafi sem utanríkisráðherra verið yfirmaður föður hennar sem verið hafi sendiherra í London árið 1991 þegar umræddur atburður hafi átt sér stað en þá var hún 14 ára gömul. Hún segist hafa vitað að Jón Baldvin væri „svolítill dónakall“, hann hafi átt það til að tala um að brjóstin á henni hefðu „stækkað síðan síðast“ og annað í þeim dúr.

„Það sem ég gleymi seint og fyrirgef aldrei er það sem gerðist í veislu heima í stofu foreldra minna þegar ég er 14 ára. Jón er drukkinn. Aftur: ekkert nýtt. En hann vill að ég setjist í fangið á sér. Hann er blautur af svita og lyktar hræðilega. Lyktin.... hún var svo stæk. Og hann grípur um brjóstin á mér og sleikir á mér eyrun og hálsinn. Ég lít upp eftir hjálp og sé Bryndísi. En hún er að brosa. Hún brosir til mín. Og ég frýs,“ segir konan.

„Það var hún sem hótaði mér

Konan segir að Jóni Baldvini hafi þótt viðbrögð hennar og það sem hann hafi verið að gera við hana fyndið og strokið á henni rassinn þegar hún hafi losað sig. „Bryndís eltir mig. Hún útskýrir fyrir mér að hann sé búinn að drekka aðeins of mikið. Honum þyki svo vænt um mig. Og svo bendir hún mér á að það sé búið að vera svo rosalega mikið að gera hjá þeim Jóni og pabba. Ég þurfi ekki að rugga bátnum; pabbi minn megi ekki við því.“

Fyrstu árin á eftir segist konan hafa vorkennt Bryndísi fyrir að eiga svona hræðilegan mann en síðan hafi sú skoðun breyst. „Fannst hún eiga samúð mína skilið. En eftir því sem árin liðu uppgötvaði ég að hún sá, hún vissi og það var hún sem hótaði mér. Þessi reynsla, hún gerði svo margt. Hún hafði skelfilegar afleiðingar fyrir mig og mína fjölskyldu.“

Konan segist hafa verið lengi að lesa frásögn Aldísar, dóttur Jóns Baldvins, sem hefur sakað hann um kynferðisofbeldi og um að hafa látið nauðungarvista hana á geðdeild á þeim forsendum að hún ætti við geðræn vandamál að stríða án þess að það væri rétt. Konan segist að sama skapi hafa verið lengi að setja frásögn sína á blað.

„Ég á pabba sem veit ekki af hverju dóttir hans gerði allt sem hún gerði til að rugga bát sem hann vissi ekki að hann væri í. Ég nefnilega ruggaði kannski ekki atvinnubátnum hans pabba, en mikið djöfull ruggaði ég bát fjölskyldunnar. Mikið hataði ég þetta „fína“ líf okkar og fólksins í því. Og mikið rosalega hef ég oft skammast mín fyrir. En í dag skila ég skömminni.“

mbl.is

Bloggað um fréttina