Dekkti húð og hár og komst til Afrín

Haukur Hilmarsson dekkti hár sitt og húð til að komast …
Haukur Hilmarsson dekkti hár sitt og húð til að komast til Afrin. Skjáskot/RÚV

Haukur Hilmarsson, sem talinn er hafa fallið í árásum Tyrkja í Afrín í Sýrlandi 24. febrúar 2018, þurfti að lita hár sitt svart og dekkja húð sína til þess að komast fram hjá Rússum og til Afrín, en hann hafði áður verið stöðvaður á leið sinni þangað vegna þess hve ljós hann var yfirlitum.

Þetta kom fram í máli hollensks félaga Hauks, eða Sahins eins og hann var kallaður í Sýrlandi, í Kveik á RÚV í kvöld.

Eftir mánaðalanga baráttu með YPG-sveitum Kúrda í Raqqa héldu Haukur og félagar hans til Afrín í tilraun til þess að koma í veg fyrir að borgin félli fyrir Tyrkjum. Lýsingar félaga Hauks, sem rætt var við í Kveik, eru vægast sagt skelfilegar, en þar þurftu þeir meðal annars að fela sig fyrir sprengjudrónum Tyrkja með regnhlífum.

Félagar Hauks telja víst að hann hafi fallið í loft- og sprengjuárásum Tyrkja þennan dag í febrúar, en þá hafði svæðið sem YPG-sveit Hauks hélt sig á verið umkringt frá þremur hliðum og árásir „fasistanna“ verið hertar.

Kúrdískur sjúkraflutningamaður sem fréttamaður Kveiks ræddi við leitaði fallinna YPG-hermanna en sagði ómögulegt að komast þar að, enda hefðu Tyrkir verið búnir að ná svæðinu. Þeir hafa enn ekki hleypt neinum inn á svæðið, ekki einu sinni hjálparsamtökum á borð við Rauða krossinn.

Félagi Sahins, Hauks, segir að áður en Haukur lést hafi hann sagst vera svo heillaður af Afrin að þar vildi hann búa eftir að stríðinu lyki.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert