Færri brottfarir en á sama tíma í fyrra

Flestir þeirra sem fóru frá landinu um Keflavíkurflugvöll í janúar …
Flestir þeirra sem fóru frá landinu um Keflavíkurflugvöll í janúar voru Bretar, eða um 34.700 farþegar, og brottfarir Bandaríkjamanna komu þar á eftir en þær mældust um 29.500. mbl.is/Eggert

Brottfarir erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll voru 139 þúsund í nýliðnum janúar eða um 8.500 færri en í janúar árið 2018, samkvæmt talningu Ferðamálastofu og Isavia. Fækkun milli ára nemur 5,8%.

Bretar og Bandaríkjamenn voru fjölmennastir, eða 46,2% brottfara. Í báðum hópum var um fækkun að ræða á milli ára. Bretum fækkaði um 8,6% og Bandaríkjamönnum um 11,9%.

Flestir þeirra sem fóru frá landinu um Keflavíkurflugvöll í janúar voru breskir, eða um 34.700 farþegar, og brottfarir Bandaríkjamanna komu þar á eftir en þær mældust um 29.500. 

Kínverskum ferðamönnum fjölgar

Kínverjar voru þriðju fjölmennastir í janúar síðastliðnum en brottfarir þeirra voru 7.700 talsins, 4,8% af heild, og fjölgaði þeim um 18,4% milli ára. Brottfarir Þjóðverja voru í fjórða sæti, um 6.600 talsins, 4,8% af heild, og fjölgaði þeim jafnframt eða um 7,7% milli ára.

Þar á eftir fylgdu síðan brottfarir Frakka, 3,9% af heild, Pólverja, 3,8% af heild, Ástrala og Ný-Sjálendinga, 2,6% af heild, Kanadamanna, 2,5% af heild, Spánverja, 2,1% af heild, og Dana, 2,0% af heild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert