Nálgast niðurstöðu

Frá samningafundi Eflingar, VR og verkalýsðfélaga Grindavíkur og Akraness með …
Frá samningafundi Eflingar, VR og verkalýsðfélaga Grindavíkur og Akraness með Samtökum atvinnulífsins í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við erum farin að nálgast niðurstöðu, en hver hún verður er ómögulegt að segja en við ætlum að reyna að blása smá púðri í þessa undirhópa sem við erum með í gangi,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, í samtali við mbl.is.  

Efling, VR og verkalýðsfélög Grindavíkur og Akraness funduðu með Samtökum atvinnulífsins í húsakynnum ríkissáttasemjara í morgun.

Enn eru þó ýmsir lausir endar í viðræðunum. „Við höfum enn og aftur þurft að hafna því að selja frá okkur réttindi okkar félagsmanna til þess að fá kjarabætur. Við höfum hafnað þeirri aðferðafræði og þurftum að gera það enn og aftur í dag,“ segir Ragnar.

Næsti fundur fer fram eftir viku og segir Ragnar að launaliðurinn verði stóra málið á dagskrá þess fundar. „Ég get ekki spáð hvort að það komi einhver niðurstaða í það eða ekki, það verður einfaldlega að koma í ljós.“

Ragnar Þór tekur undir með Guðbrandi Einarssyni, formanni Verslunarmannafélags Suðurnesja og Landssambands íslenskra verslunarmanna, að yfirstandandi kjaraviðræður séu mjög flóknar, líkt og fram kemur í samtali við Guðbrand í Morgunblaðinu í dag.

„Viðræðurnar eru að mörgu leyti flóknar og aðkoma stjórnvalda þarf að verða mun meiri til að leysa þetta og við erum að fara fram á ákveðnar kerfisbreytingar til að lækka kostnaðinn við að lifa,“ segir Ragnar og vísar þar til húsnæðismála, verðtryggingarmál og skattamál sem hafa meðal annars verið til umræðu á samningafundunum.

„En það á ekki að breyta því að þetta á ekki að þurfa að taka svo mikið lengri tíma ef við erum einbeitt í því að leysa þetta verkefni,“ segir Ragnar. 

Kjaraviðræðum Eflingar, VR, VLFA og VLFG miðar áfram og segir …
Kjaraviðræðum Eflingar, VR, VLFA og VLFG miðar áfram og segir formaður VR að stutt sé í niðurstöðu. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert