Reykjavíkurdætur ekki minna virði en aðrir

Tónlistarhátíðin Secret Solstice hefur verið haldin árlega í Laugardalnum frá …
Tónlistarhátíðin Secret Solstice hefur verið haldin árlega í Laugardalnum frá árinu 2014. mbl.is/Styrmir Kári

„Secret Solstice hefur alltaf stutt við bakið á Reykjavíkurdætrum,“ segir Víkingur Heiðar Arnórsson, nýr framkvæmdastjóri tónlistarhátíðarinnar Secret Solstice.

Hljómsveitin Reykjavíkurdætur vakti athygli á því í gær að þær hafi ekki fengið greitt fyrir framkomu sína á tónlistarhátíðinni í fyrra og aðstandendur hátíðarinnar hafi nú haft samband við þær og falast eftir því að þær troði upp á hátíðinni í sumar, ókeypis.

Víkingur fullyrðir að gert verði upp við alla listamenn sem ekki hafa fengið greitt fyrir að koma fram á síðustu hátíð. Rekstrarerfiðleikar og breytingar á rekstri hátíðarinnar hafi hins gert það að verkum að dregist hefur á langinn að ganga frá greiðslum.

Live Events hefur tekið við rekstri hátíðarinnar af Solstice Productions og mun hátíðin fara fram 21. - 23. júní í Laugardalnum líkt og undanfarin ár.

Víkingur Heiðar Arnórsson, framkvæmdastjóri Secret Solstice-tónlistarhátíðarinnar.
Víkingur Heiðar Arnórsson, framkvæmdastjóri Secret Solstice-tónlistarhátíðarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Boðið að koma fram á undan Pussy Riot

Víkingur segir að færsla Reykjavíkurdætra segi aðeins hálfa söguna. „Það er ekki eins og ég væri að segja að þær væru minna virði en aðrir. Ég bauð þeim einn mögleika og sagði að ef þær vildu hann ekki gætum við hist og rætt aðra möguleika þar sem greiðsla er í boði,“ segir hann.

Boðið fólst í að koma fram á stærsta sviði hátíðarinnar á undan rússnesku hljómsveitinni Pussy Riot sem verður stærsta hljómsveitin sem kemur fram sama kvöld. Ýmis önnur stór nöfn hafa verið bókuð á hátíðinni, svo sem Robert Plant og Rita Ora.

Víkingur segir það ekki vanvirðingu við íslenska listamenn að bjóða þeim að koma fram endurgjaldslaust. „Það hefur ekkert með það að gera hvaðan menn eru, þetta snýst bara um framboð og eftirspurn. Margir listamenn kjósa þess frekar að spila endurgjaldslaust og fá plássið sem þau vilja, frekar en að taka við greiðslu og lenda of framarlega í dagskránni.“

Þá bætir hann við að tónlistarhátíðir eins og Secret Solstice séu tilvalinn vettvangur til fyrir tónlistarmenn til að stíga sín fyrstu skref. „Má þar helst nefna ClubDub sem tók sitt fyrsta skref á ferlinum á Secret Solstice 2018 og stökk beint upp á toppinn á tónlistarsenunni á einni helgi,“ segir Víkingur. 

Útlit er fyrir að ýmsar breytingar verði á hátíðinni í ár, en samkvæmt bókun borgarráðsfulltrúa Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, Viðreisn­ar, Pírata og Vinstri grænna frá því í nóvember mun hátíðin ein­göngu fara fram á Þrótt­ara­vell­in­um næsta sum­ar og verður ekki eins um­fangs­mik­il og hún hef­ur verið á und­an­förn­um árum. Þá mun hún höfða til eldri mark­hópa, auk þess sem eft­ir­lit verður aukið og tryggt að hátíðin fari sem best fram.mbl.is