Verðmunur á matvörukörfu úr 3% í 40%

Vörukarfan sem verðlagseftirlitið bar saman kostaði mest í Reykjavík eða …
Vörukarfan sem verðlagseftirlitið bar saman kostaði mest í Reykjavík eða 7.878 kr. mbl.is/​Hari

Matvörukarfa í Reykjavík er 67% dýrari en í Helsinki í Finnlandi, þeirri höfuðborg á Norðurlöndunum þar sem vörukarfan er ódýrust, samkvæmt niðurstöðum nýrrar verðkönnunar verðlagseftirlits ASÍ.

Vörukarfa samsett af algengum matvörum úr helstu vöruflokkum, svo sem mjólk, osti, kjötvöru, grænmeti, ávöxtum og brauði er mun dýrari í Reykjavík en í höfuðborgum hinna Norðurlandanna, en verðkönnunin var framkvæmd í byrjun desember í leiðandi lágvöruverslunum.

Það land sem er næst Íslandi í vöruverði er Noregur, en vörukarfan í Ósló er samt sem áður 40% ódýrari en í Reykjavík.

Vörukarfan sem verðlagseftirlitið bar saman kostaði mest í Reykjavík eða 7.878 kr. og næstmest í Noregi, 5.631 kr. Sambærileg vörukarfa í Kaupmannahöfn kostar 5.173 kr og 5.011 krónur í Stokkhólmi. Ódýrasta matvörukarfan var í Helsinki þar sem hún kostaði 4.729 kr.

Verðmunur á kjöt- og mjólkurvörum og grænmeti var mikill á milli landa. Til að mynda kostar kíló af brauðosti 1.411 kr. á Íslandi en 556 kr. í Helsinki. Þá var 560% munur á hæsta og lægsta kílóverði af gulrótum.

Niðurstöður könnunarinnar eru í takt við sambærilega könnun sem verðlagseftirlitið gerði árið 2006, en helsti munurinn er á verði á matvörukörfu í Reykjavík og Ósló, sem er nú 40% en var aðeins 3% árið 2006. Stokkhólmur var ódýrastur árið 2006 en í dag er Helsinki ódýrasta borgin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert