Réðst að börnum á biðstöð

Einn þurfti að leita sér aðstoðar á slysadeild eftir að …
Einn þurfti að leita sér aðstoðar á slysadeild eftir að hafa orðið fyrir barðinu á manninum. mbl.is/Hari

Mörg mál komu til kasta lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og í nótt. Má þar nefna mann sem réðst að börnum í strætóskýli, slagsmál, líkamsárásir, mann sofandi ölvunarsvefni í stigagangi, mann sem fór í húsavillt og annan sem stóð ber að ofan öskrandi fyrir utan fjölbýlishús. 

Tilkynnt var til lögreglu um mann í annarlegu ástandi að ráðast að börnum í strætóskýli í gærkvöldi en maðurinn hafði hlaupið af vettvangi. Lögregla náði manninum skammt frá en einn þurfti að leita sér aðstoðar á slysadeild vegna atviksins, að því er fram kemur í dagbók lögreglunnar.

Óskað eftir aðstoð lögreglu í miðbænum vegna blóðugs manns. Hafði verið ráðist að manninum og hann með áverka eftir í andliti. Manninum var komið á slysadeild en ekki er vitað hverjir réðust á hann. 

Lögreglunni barst tilkynning um mann sem var að reyna komast inn í hús í Breiðholti og  þegar lögregla kom á vettvang og ræddi við manninn kom í ljós að hann hafði farið húsavillt. Honum leiðbeint í rétta átt, að því er segir í dagbók lögreglunnar.

Tilkynnt um slagsmál fyrir utan skemmtistað í miðbænum en þegar lögregla kom á vettvang voru slagsmálahundarnir allir á brott.  

Óskað eftir aðstoð lögreglu á hóteli í miðbænum en þar var mjög ölvaður maður til vandræða. Maðurinn neitaði að yfirgefa hótelið og endaði með því að lögregla fjarlægði manninn og vistaði í fangaklefa sökum ölvunar og ástands.

Íbúar fjölbýlishúss í miðbænum höfðu samband við lögreglu vegna manns sem svaf   ölvunarsvefni í stigaganginum. Lögreglan vakti manninn og aðstoðaði hann við að komast til síns heima. 

Lögreglan fékk síðan tilkynningu um mann sem stóð ber að ofan öskrandi fyrir utan fjölbýlishús í Breiðholti. Eins var lögregla beðin um að aðstoða starfsfólk á skemmtistað í miðbænum en þar inni voru menn til vandræða. Lögregla kom á vettvang og vísaði mönnunum út. Þeir urðu við því og fóru sína leið.

Tvær tilkynningar bárust til lögreglu um grunsamlegar mannaferðir en í hvorugt skiptið fundust viðkomandi. Í öðru tilvikinu hafði maður verið að sniglast í bakgarði húss en forðað sér þegar íbúi varð hans var. Tilkynnt um innbrot í heimahús en ekki kemur fram í dagbók lögreglu hvort einhverju var stolið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert