Hættumerkingum skotelda ábótavant

Flugeldar yfir Kópavogi og Reykjavík um áramót.
Flugeldar yfir Kópavogi og Reykjavík um áramót. mbl.is/​Hari

Engir skoteldar af þeim 25 sem voru skoðaðir í eftirliti Umhverfisstofnunar á milli jóla og nýárs reyndust merktir með fullnægjandi hætti.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá stofnuninni.

Vegna sprengihættu sem stafar af skoteldum ber að merkja þá með hættumerkinu „Sprengifimt“ í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 415/2014 um flokkun, merkingu og umbúðir efna og efnablanda.

Einnig skulu á umbúðum þeirra vera staðlaðar hættu- og varnaðarsetningar á íslensku sem lýsa eðli hættunnar og einnig skal leiðbeint um örugga notkun, geymslu og förgun. Sömuleiðis er krafa um að viðvörunarorð á íslensku komi fram á umbúðunum, annaðhvort „Varúð“ eða „Hætta“ og lýsir hið síðarnefnda alvarlegri hættueiginleikum.

Í úrtaki eftirlits Umhverfisstofnunar lentu 25 mismunandi skoteldar frá þeim sex birgjum sem eru ráðandi á markaði hér á landi. Hættumerkingum á skoteldum er augljóslega mjög ábótavant, að því er segir í tilkynningunni, þar sem engin vara af þessum 25 í úrtakinu uppfyllti kröfur á fullnægjandi hátt. Hvorki voru íslenskar né erlendar merkingar á 13 vörum (52%). Merkingar voru aðeins á erlendu tungumáli á fjórum vörum (16%) og átta vörur báru ófullnægjandi merkingar á íslensku.

Fengu þriggja vikna frest

Söluaðilum var leiðbeint um réttar merkingar og gefinn þriggja vikna frestur til að senda stofnuninni afrit af fullgildri merkingu varanna. Jafnframt var gerð krafa um að allar vörur verði rétt merktar á næsta sölutímabili, þ.e. fyrir næstu áramót. Stofnunin ætlar að fylgja því eftir með öðru eftirliti.

Um merkingar skotelda gilda líka ákvæði reglugerðar nr. 414/2017 um skotelda, þar sem Neytendastofu er falið að vera með eftirlit. Reglugerðin tekur einnig til atriða er varða markaðssetningu, samsetningu, öryggi og meðferð á þessum vörum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert