Reyna að blekkja umsækjendur

Dæmi um erindi frá óprúttnum erlendum aðilum þar sem þeir …
Dæmi um erindi frá óprúttnum erlendum aðilum þar sem þeir óska eftir greiðslum. Ljósmynd/Aðsend

Einkaleyfastofunni berast reglulega ábendingar um að íslenskum umsækjendum hafi borist erindi frá erlendum aðilum þar sem óskað er eftir greiðslu fyrir birtingu vörumerkja í erlendum gagnagrunnum.

„Þarna getur verið um umtalsverðar fjárhæðir að ræða sem er verið að reyna að hafa af eigendum hugverka eða umsækjendum,“ segir Elva Íshólm Ólafsdóttir, sviðsstjóri rekstrarsviðs Einkaleyfisstofunnar, og nefnir að 1.800 til 1.900 evrur séu algengar í því samhengi, eða í kringum 250 þúsund krónur.

Samræmdar aðgerðir í gangi

Á vef Einkaleyfastofunnar kemur fram að stofan hafi enga tengingu við þessa aðila. Hún beinir þeim tilmælum til viðskiptavina sinna að greiða ekki umbeðin gjöld berist þeim erindi af þessu tagi, því tilgangurinn virðist eingöngu vera sá að blekkja umsækjendur. Elvu Íshólm er ekki kunnugt um að neinn hafi fallið í gildruna hérlendis en talar um að svik sem þessi virðast koma í bylgjum og að nokkrar tilkynningar hafi borist í þessari viku.

Ýmsar samræmdar aðgerðir eru í gangi hjá alþjóðastofnunum erlendis til að sporna við þessu vandamáli og hefur Einkaleyfastofan verið í samstarfi við þær, þannig að allir umsækjendur um einkaleyfi séu meðvitaðir um hættuna sem er fyrir hendi.  

Reyna að misnota kerfið 

Elva Íshólm segir að kerfið varðandi einkaleyfi snúist um að hafa gögn aðgengileg þannig að ljóst sé hverjir eigi hvaða réttindi. „Það eru bara óprúttnir aðilar sem hafa greinilega ákveðið að það væri hægt að misnota það.“

Öll gjöld varðandi umsóknir um skráningu vörumerkja hér á landi greiðast til Einkaleyfastofunnar og greiðslur vegna umsókna um skráningu vörumerkja erlendis koma aldrei til nema umsækjandi, eða umboðsmaður hans, hafi sjálfur lagt inn umsókn hjá viðeigandi aðilum, að því er kemur fram á vefsíðu stofunnar.

Þar er átt við World Intellectual Property Organisation (WIPO), European Union Intellectual Property Office (EUIPO) eða einstök lönd.

Hátt í 5 þúsund umsóknir á ári

Einkaleyfastofan tekur á móti vel á 5 þúsund umsóknum um vörumerki á hverju ári. Að sögn Elvu hefur fjöldi umsókna aukist undanfarið og eru þær að stórum hluta frá erlendum aðilum sem óska eftir því að fá vörumerkin sín vernduð hér á landi.

mbl.is